Sjúkratryggingar Íslands telja að Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ) hafi á síðustu 15 árum tekið ólöglega um 600 milljónir út úr rekstri Heilsustofnunar Náttúrulækningafélagsins (HNLFÍ) í formi arðgreiðsla, en NLFÍ er eigandi HNLFÍ og með samning við Sjúkratryggingar vegna þeirrar þjónustu sem veitt er á Heilsustofnuninni. Þá telja Sjúkratryggingar einnig að Heilsustofnunin hafi verið látin greiða afborganir lána af fasteignum í eigu NLFÍ og bera allan viðhalds- og rekstrarkostnað þeirra. Heilsustofnunin hafi svo rukkað hátt gistigjald af þeim sem komu í endurhæfingu til að mæta þessum útgjöldum. Hafi gistigjaldið verið hækkað langt umfram það sem kveðið var á um í samningum við Sjúkratryggingar. Fara Sjúkratryggingar fram á aðgerðir vegna þessa, en hóta annars riftun á samningi.
Forsvarsmenn NLFÍ vísa þessum ásökum hins vegar á bug og segja riftun geta leitt til þess að farið verði fram á bætur. Þá telur NLFÍ jafnfram að úttekt Sjúkratrygginga sé ekki lokið og að enn eigi eftir að taka tillit til andmæla félagsins.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í úttekt Sjúkratrygginga á starfsemi Heilsustofnunarinnar sem lauk í desember. Kjarninn birti í dag bæði bréf Sjúkratrygginga til Heilsustofnunarinnar og svarbréf lögmanns Heilsustofnunarinnar þar sem ásökunum er hafnað.
Samningur vegna endurhæfingar á Heilsustofnuninni nær til ársins 1991, en þá var gerður samningur á milli NLFÍ og heilbrigðisráðuneytisins. Árið 2019 var sá samningur hins vegar færður yfir á Heilsustofnunina. Rennur þessi samningur út núna í mars.
Í bréfi Sjúkratrygginga eftir að úttektinni lauk kemur meðal annars fram að Sjúkratryggingar telji HNLFÍ ekki hafa mátt „þenja reksturinn út“ umfram það sem samið var um og „velta þeim umframkostnaði á sjúklinga svo standa mætti undir arðgreiðslum til NLFÍ.“ Vísað er til þess að árið 2009 hafi stjórn Heilsustofnunarinnar ákveðið að hækka arðgreiðslur umfram það sem bókanir með samningi SÍ og HNLFÍ heimilaði.
„Því er ljóst að hækkun „framlagsins“ er ákvörðuð af stjórn án aðkomu samningsaðila (þ.e. SÍ eða Heilbrigðisráðuneytisins) og í raun aukin úttekt eiganda á fjármunum úr félaginu. Þá er ljóst að verið er að nýta rekstrarfé HNLFÍ til „heilsutengdrar ferðaþjónustu“ sem ekki er samningsbundin starfsemi skv. samningi við SÍ,” segir í bréfi Sjúkratrygginga til Heilsustofnunarinnar. Segir jafnframt að þetta gefi tilefni til að ætla að rekstur Heilsustofnunarinnar kunni að vera látinn bera margháttaðan kostnað sem ekki tengist rekstri stofnunarinnar.
Í úttekinni eru fasteignamál stofnunarinnar jafnframt skoðuð. Bent er á að í reikningum Heilbrigðisstofnunarinnar séu fasteignir og lóðaréttindi á svæðinu tilteknar sem eignir stofnunarinnar. Hins vegar séu umræddar eignir þinglýstar á NLFÍ. Var lóðarréttindum þinglýst á Heilsustofnunina árin 2001-2004 en svo þinglýst frá stofnuninni til NLFÍ árið 2004 án skýringa. Segja Sjúkratryggingar að millifærsla á fjármunum frá HNLFÍ til NFLÍ sé með öllu óheimil og skýrt brot á samningi við Sjúkratryggingar. Segir jafnframt að lóðamálin kalli á frekari skoðun sem og önnur fasteignaumsvif og fjármunafærslur þeim tengdar.
Segir í úttekt Sjúkratrygginga að „úttekt móðurfélagsins á fjármunum úr rekstri Heilsustofnunarinnar, þ.e. tæplega 600 m.kr. verðbætt undanfarin 15 ár, og það að HNLFÍ hafi verið látin greiða afborganir lána af fasteignum í eigu NLFÍ ásamt því að bera allan viðhalds- og rekstrarkostnað“ hafi skekkt rekstrarreikning Heilsustofnunarinnar og sé ekki lögmæt að mati Sjúkratrygginga.
Er að lokum af hálfu Sjúkratrygginga farið fram á aðgerðir í fjórum liðum.
Í fyrsta lagi að NLFÍ hætti að taka árlega arðgreiðslu út úr rekstrinum. Í öðru lagi að skilið verði á milli rekstrar Heilsustofnunarinnar og annars óskylds rekstrar. Í þriðja lagi að samkomulag um fasteignir og lóðarréttindi frá árinu 1991 verði efnt. Að öðrum kosti verði allt tengt fasteignunum fjarlægt úr reikningum Heilsustofnunarinnar og að lögð verði fram ábyrgðaryfirlýsing frá banka sem sýni jákvætt eigið fé upp á að minnsta kosti þriðjung af ársveltu. Að lokum að gjald sem tekið er fyrir endurhæfingu verði lækkað umtalsvert þannig að það endurspegli raunkostnað vegna gistinátta. Segja Sjúkratryggingar að frekari brot kunni að leiða til þess að metin verði önnur vanefndarúrræði, svo sem riftun samnings.
Í svarbréfi NLFÍ er öllum ásökunum sem koma fram í bréfi Sjúkratrygginga hafnað. Segir þar að ekki sé hægt að fallast á túlkanir Sjúkratrygginga á gildi bókana með samningnum frá 1991. Meðal annars telur NLFÍ að ekki sé kveðið á um að fasteignir félagsins þurfi að heyra undir Heilsustofnunina, heldur að þær skuli vera til afnota fyrir hana.
Þá segir um arðgreiðslurnar að sameiginlegur skilningur hafi verið um að nýjar fjárfestingar sem stofnað hafi verið til verði eign NLFÍ. NLFÍ hafi staðið að byggingu bað- og meðferðarhúss, nýrrar sundlaugar og nýrrar gistiálmu auk annars. „Eðli málsins samkvæmt hlýtur afgjald það sem rennur til NLFÍ að stýrast, a.m.k. að einhverju leyti af þeim verðmætum sem lagðar eru til þeirrar starfsemi sem fram fer á vegum Heilsustofnunar,“ segir í svarbréfinu.
Jafnframt segir að fullyrðingar um að reksturinn hafi verið þaninn út séu ekki svara verðar. Umfang rekstursins hafi frá árinu 1991 mótast af þjónustusamningi við ríkið.
Segir NLFÍ jafnframt að framlag Sjúkratrygginga árið 2019 til greiðslu kostnaðar við endurhæfingu hafi numið 23.703 krónum á hvern meðferðardag. Kostnaðurinn hafi hins vegar verið 25.735 krónur og Heilsustofnunin því niðurgreitt endurhæfingarþjónustuna um rúmlega tvö þúsund krónur á hvern meðferðardag. Uppsöfnuð niðurgreiðsla síðustu fimm ára telji um 380 milljónir og að sértekjur stofnunarinnar hafi verið nýttar í þetta.
Segist NLFÍ ekki geta fallist á kröfur Sjúkratrygginga um aðgerðirnar sem settar voru fram í fjórum liðum. Segist NLFÍ vera tilbúið að taka núverandi fyrirkomulag til endurskoðunar, en telja að breytt útfærsla kunni að verða mun kostnaðarsamari en núverandi fyrirkomulag. Að lokum er tekið fram að NLFÍ telur ekki að lögformleg skilyrði séu til staðar um riftingu samnings og að slík rifting gæti haft „grafalvarlegar afleiðingar“ og að Heilsustofnunin áskilji sér rétt til að krefja Sjúkratryggingar um bætur fyrir tjón sem af slíkri riftun kann að leiða.