Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er byrjaður að vinna að nýju minnisblaði fyrir ráðherra, með tillögum að sóttvarnaaðgerðum. Núverandi takmarkanir gilda til 12. janúar næstkomandi.
Á upplýsingafundi almannavarna í gær talaði Þórólfur um að til skoðunar væri að létta sóttkví hjá þríbólusettum einstaklingum og í samtali við mbl.is staðfestir hann að útfærsla á þeirri hugmynd komi fram í minnisblaðinu.
„Við höfum talað um að slaka á kröfum um sóttkví fyrir þá sem eru þríbólusettir. Það mun verða með í þessu en svo á útfærslan á því eftir að koma í ljós,“ segir Þórólfur.
Hann vill ekki gefa upp hvort hugmyndin sé að þríbólusettir sleppi alveg við sóttkví. „Það verður að koma í ljós en ég er með ákveðnar tillögur sem ráðherra þarf síðan að taka afstöðu til.“
Aðspurður hvort slík breyting geti ekki orðið til þess að smitum fjölgi, segir Þórólfur:
„Það má alltaf segja að allar tilslakanir, þegar maður er með svona mikla útbreiðslu, auki að einhverju leyti hættuna á því. Við erum bara að reyna að gera þetta þannig að við erum að mæta ákveðnum kröfum því samfélagið þarf náttúrulega að ganga líka. Ég reyni að leggja það til sem ég tel ólíklegast að auki hættuna á smitum.“
Óráðlagt sé hins vegar að fara í frekari afléttingar á þessum tímapunkti.
Hvort það verði farið í að herða aðgerðir á einhverjum sviðum segir hann það verða að koma í ljós.
1.063 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær, en þar af voru 464 í sóttkví. Metfjöldi greindist á landamærum, eða 314 smit. Smittölur hafa verið svipaðar síðustu daga, en sjúklingum sem liggja inni á Landspítala smitaðir af Covid-19 hefur farið fjölgandi jafnt og þétt síðustu daga. 32 sjúklingar liggja nú á spítalanum með kórónuveiruna, sjö þeirra á gjörgæslu, þar af sex í öndunarvél.
„Það er að fjölga í innlögnum og við þurfum að sjá hversu alvarleg þau veikindi eru. Það eru að leggjast inn á dag fimm til sex manns og það útskrifast þrír til fjórir, þannig þetta stendur mjög tæpt. Það gæti allt í einu hrúgast inn fjöldi veikra, það veit maður auðvitað ekki, en vonar svo sannarlega að það gerist ekki, en þetta er tæpt á spítalanum með þessar tölur.“