„Allar bækur eru opnar og ég ítreka það að við höfum ekkert að fela og við höfum aldrei fengið neinar athugasemdir,“ segir Þórir Haraldsson forstjóri Heilsustofnunar NLFÍ í samtali við mbl.is og bætir við að Heilsustofnun hafi lagt allt upp á borðið fyrir Sjúkratryggingar, Ríkisendurskoðun og aðra opinbera eftirlitsaðila.
Líkt og mbl.is fjallaði um fyrr í dag telja telja Sjúkratryggingar Íslands að Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ) hafi á síðustu 15 árum tekið ólöglega um 600 milljónir út úr rekstri Heilsustofnunar Náttúrulækningafélagsins (HNLFÍ) í formi arðgreiðsla, en NLFÍ er eigandi HNLFÍ og með samning við Sjúkratryggingar vegna þeirrar þjónustu sem veitt er á Heilsustofnuninni.
Að sögn Þóris er úttekt Sjúkratrygginga á málefnum Heilsustofnunarinnar þó ekki lokið. „Samkvæmt stjórnsýslulögum þá ber stjórnvaldi að veita andmælarétt við ákvörðunum sínum og við höfum aldrei fengið slíka ákvörðun. Við höfum fengið bréf frá eftirlitsdeildinni en við höfum aldrei fengið neitt sem heitir ákvörðun eða drög að ákvörðun eða tækifæri til að leggja fram andmæli,“ segir Þórir.
Í bréfi sem Þórir sendi mbl.is segir að það sé rangt að 600 milljónir króna hafi verið teknar ólöglega út úr Heilsustofnun og að hver einasta króna af framlagi ríkis til stofnunarinnar hafi farið til að veita þjónustu til sjúklinga í samræmi við þjónustusamning stofnunarinnar við Sjúkratryggingar Íslands.
„Þegar uppreiknuð er fjárhæð í fimmtán ár þá er auðvelt að fá mörg núll í upphæðina en þetta byggist á þeirri röngu forsendu að samningar Heilsustofnunar við Heilbrigðisráðuneytið frá árinu 1991, sem hafa verið grundvallarforsenda allra samninga við Sjúkratryggingar síðast liðin 30 ár, þeir hafi allt í einu orðið ógildir á einhverjum tíma. Ég bara get ekki samþykkt það,“ segir Þórir í samtali við mbl.is.
Samningurinn sem var gerður árið 1991 milli NLFÍ og heilbrigðisráðuneytisins var síðan færður yfir á Heilsustofnunina árið 2019.
„Að athugasemdalaus framkvæmd í 30 ár sé allt einu núna dæmd ólögmæt fimmtán ár aftur í tímann er bara eitthvað sem ég get ekki sætt mig við,“ segir Þórir.
Í úttekt Sjúkratrygginga er einnig bent á að í reikningum Heilbrigðisstofnunarinnar séu fasteignir og lóðaréttindi á svæðinu tilteknar sem eignir stofnunarinnar en þær séu þinglýstar á NLFÍ. Segja Sjúkratryggingar að millifærsla á fjármunum frá HNLFÍ til NFLÍ sé með öllu óheimil og skýrt brot á samningi við Sjúkratryggingar
Þórir segir fasteignamál stofnunnarinnar í samræmi við fyrrnefnt samkomulag frá 1991 við heilbrigðisráðherra. „Þar kemur það beint fram að náttúrulækningafélagið verði eigandi allra fasteigna sem verða til í rekstri heilsustofnunar til framtíðar."
Aðspurður segir Þórir að til þess að hægt sé að lækka gistigjöldin hjá Heilsustofnuninni væri skynsamlegt af Sjúkratryggingum að byrja á því að greiða að fullu meðferðarkostnað einstaklinga sem þar dvelja en Sjúkratryggingar hafa meðal annars farið fram á að gjald sem tekið er fyrir endurhæfingu verði lækkað umtalsvert þannig að það endurspegli raunkostnað vegna gistinátta.
„Hver einasti einstaklingur sem hér er til læknismeðferðar þarf sjálfur að greiða yfir 2000 krónur á dag fyrir endurhæfingarkostnaðinn,“ segir Þórir en NLFÍ hefur einnig bent á að framlag Sjúkratrygginga árið 2019 til greiðslu kostnaðar við endurhæfingu hafi numið 23.703 krónum á hvern meðferðardag. Kostnaðurinn hafi hins vegar verið 25.735 krónur og Heilsustofnunin því niðurgreitt endurhæfingarþjónustuna um rúmlega tvö þúsund krónur á hvern
„Við vildum mjög gjarnan njóta til dæmis sömu kjara og Reykjalundur. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2018 kemur fram að fyrir sambærilega þjónustu sé greitt tvöfalt hærra gjald á Reykjalundi heldur en á Heilsustofnun. Ef við nytum þeirra greiðslna þá þyrftum við ekki að rukka sjúklinga með þessum hætti,“ segir Þórir að lokum.