75 þúsund í launaauka fyrir starfsmenn fái þeir ættingja og vini til starfa

Launaaukinn kemur þegar þriggja mánaða ráðningarsamband hefur átt sér stað …
Launaaukinn kemur þegar þriggja mánaða ráðningarsamband hefur átt sér stað og er áætlaður kostnaður verkefnisins er allt að fimm milljónir króna. mbl.is/​Hari

Borgarráð samþykkti á þriðjudag tillögu skóla- og frístundasviðs um að auka stuðning við leikskóla varðandi ráðningar- og mannauðsmál, meðal annars með því að setja af stað verkefni sem felst í því að greiða starfsmönnum leikskóla fyrir að fá vini og ættingja til starfa í skólunum.

Verkefnið ber yfirskriftina „Vertu með!“ og gengur út á það að ef starfsmaður fær vin eða ættingja til starfa í leikskóla fær viðkomandi starfsmaður 75.000 kr. launaauka.

Launaaukinn kemur þegar þriggja mánaða ráðningarsamband hefur átt sér stað. Áætlaður kostnaður verkefnisins er allt að fimm milljónir króna.

„Brúum bilið verkefnið sem gerir ráð fyrir mikilli fjölgun leikskólaplássa næstu árin felur í sér að fjölga þurfi starfsmönnum í leikskólum um 250-300 næstu 3-4 árin,“ segir í tillögum frá skóla- og frístundasviði sem lagðar voru fram af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.

Heildarviðbótarkostnaður við tillögurnar 20 milljónir

Auk annarra verkefna sem lagðar voru fram má nefna umbætur á auglýsingarvef Reykjavíkurborgar um laus störf, nýja auglýsingarherferð, ítarlega greiningarvinnu og stuðningur við einstaka leikskóla.

Þá er einnig lagt til að ráðinn verði sérstakur mannauðsráðgjafi til eins árs til að halda utan um átaksverkefnið í mannauðsmálum leikskólanna. Áætlaður kostnaður við það er um 12 milljónir króna en heildarviðbótarkostnaður við tillögurnar eru 20 milljónir króna.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósialistaflokksins.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósialistaflokksins. mbl.is/Eggert

Ábyrgð borgarinnar að manna stöður, ekki starfsfólks

„Það verður að horfast í augu við rót vandans og skoða raunverulegar ástæður þess af hverju illa gengur að ráða fólk til starfa á leikskólum en ekki setja það á herðar starfsfólks að fá nýja inn. Sama hversu mikið er auglýst eða fólk hvatt til þess að sækja um, þá stendur eftir sú staða að hér eru störf sem ekki er mikið greitt fyrir,“ segir í bókun sem áheyrnafulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, Sanna Magdalena Mörtudóttir, lagði fram.

Sanna segir starfsfólk leikskólans ætti að fá launauka fyrir að vinna „mikilvægasta starf í heimi“ eins og auglýsingaherferðir hafi bent réttilega á.

„Fulltrúi sósíalista sér ekki hvernig það að koma á launaauka sem sumir fá og aðrir ekki fyrir að útvega starfsfólk, sé til þess að bæta stöðuna. Það er á ábyrgð borgarinnar að manna stöður, ekki á að færa þá ábyrgð á starfsfólk leikskóla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert