Framtíð starfseminnar á B1 óræð

Framkvæmdir við að koma á laggirnar sérstakri farsóttardeild á Landspítalanum …
Framkvæmdir við að koma á laggirnar sérstakri farsóttardeild á Landspítalanum munu taka fimm til sjö mánuði. Ljósmynd/Þorkell

Ekki liggur fyrir hvert starfsemi Landspítalans sem fer nú fram á deildinni B1 í Fossvogi mun færast en fyrirhugað er að ný farsóttardeild taki þar til starfa.

Þetta segir Ragnheiður S. Einarsdóttir yfirsjúkraþjálfari Landspítala. 

B1 hýsir nú sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, sálgæslu (kapellu og skrifstofu sjúkrahúsprests) og einnig dagdeild fyrir B7-deildina.

Finna þurfi viðeigandi pláss

Að sögn Ragnheiðar er ferlið á byrjunarstigi og því erfitt að svara spurningum um hvert framhaldið verður. Eins og er liggur engin lausn fyrir en ekki stendur til að leggja neina starfsemi niður. Það þurfi hins vegar að finna viðeigandi pláss.

Í skriflegu svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is kemur fram að framkvæmdir og hönnun við að koma á laggirnar sérstakri farsóttardeild á Landspítala geti tekið um fimm til sjö mánuði.

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, segir farsóttardeildina enn á teikniborðinu.

Aðspurð segir Ragnheiður erfitt að ímynda sér að starfsemin færist í húsnæði utan Landspítalans í Fossvogi enda sinni starfsfólkið sjúklingum sem þar liggi inni, eins og annað heilbrigðisstarfsfólk sem þar starfar. Hefur hún jafnframt ekki orðið vör við neitt tal um slíkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert