Hrafnista sendi í dag út ákall til aðstandenda heimilisfólks um að skrá sig í bakvarðasveit hjúkrunarheimilanna í dag. Erfitt hefur tekist að ráða nýtt starfsfólk.
„Við erum að undirbúa okkar svörtustu sviðsmynd og óskum eftir öllum þeim höndum sem eru til í að skrá sig í bakvarðasveit aðstandenda,“ segir María Fjóla Harðardóttir framkvæmdastjóri Hrafnistu í samtali við mbl.is.
„Við vitum ekki hvert þessi smitfjöldi, með tilheyrandi einangrun starfsmanna, á eftir að fara með okkur. Það er ekki auðvelt að finna starfsfólk þótt svo að við gætum og vildum gjarnan ráða fleiri inn.
Ef til þess kemur að starfsfólk okkar er að fara út í einangrun í stórum hópum þá er mjög mikilvægt að við séum eins vel undirbúin og við mögulega getum.“
„Við erum mjög þakklát fyrir að skólarnir séu opnir þar sem við myndum lenda í vandræðum ef þeir væru lokaðir því þá væri fólk heima að passa börnin sín en þá gerum við samt ráð fyrir því að smitum muni fjölga.“
María segir að enginn aðstandandi verði settur í verkefni sem hann treysti sér ekki til.
„Ég vil hvetja aðstandendur til að skrá sig. Það verður enginn aðstandandi settur í verkefni sem hann treystir sér ekki til. Nú þurfum við að standa saman sem samfélag.“