Lítið skref í rétta átt

Aðgerðarhópurinn Öfgar fyrir utan Laugardalsvöll síðastliðið haust.
Aðgerðarhópurinn Öfgar fyrir utan Laugardalsvöll síðastliðið haust. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leyfi eða af­sagn­ir fimm manna, sem sakaðir eru um kyn­ferðisof­beldi gegn ungri konu, eru lítið skref í rétt átt að mati Ólaf­ar Töru Harðardótt­ur, úr aðgerðahópn­um Öfgum. Öllum sigr­um þolenda fylgi þó bak­slag og seg­ir hún face­book-færslu Loga Berg­manns Eiðsson­ar, út­varps­manns á K100, dæmi um bak­slag.

Þar lýsti Logi yfir sak­leysi sínu en ung kona, Vítal­ía Lazareva, sakaði Loga um að hafa gengið inn á hana og ást­mann henn­ar í miðjum ástaratlot­um á hót­el­her­bergi í golf­ferð sem þau voru sam­an í. Á ást­maður­inn að hafa keypt þögn manns­ins gegn því að veita hon­um kyn­ferðis­leg­an greiða með Vítal­íu, gegn henn­ar vilja.

Vítal­ía sagði í viðtali við Eddu Falak í hlaðvarp­inu Eig­in kon­ur frá of­beld­is­fullu ástar­sam­bandi við þjóðþekkt­an gift­an mann. Hún nafn­greindi hann ekki í þætt­in­um en maður­inn er sagður vera Arn­ar Grant. 

Þar sagði hún enn frem­ur frá potta­ferð með Arn­ari og þrem­ur öðrum mönn­um í sum­ar­bú­staðaferð. Áður en hún vissi af hafi þeir all­ir byrjað að snerta hana og þukla á henni. Hún seg­ir þá hafa farið yfir mörk­in og yfir mörk allra sem voru sam­an í pott­in­um. 

Vitaliya Lazareva var gestur Eddu Falak í hlaðvarpsþættinum, Eigin konur, …
Vitaliya Lazareva var gest­ur Eddu Falak í hlaðvarpsþætt­in­um, Eig­in kon­ur, í vik­unni. Ljós­mynd/​Skjá­skot Eig­in kon­ur

Logi, Arn­ar Grant, Ari Edwald og Hreggviður Jóns­son hafa all­ir farið í leyfi frá störf­um vegna máls­ins. Þórður Már Jó­hann­es­son lét af störf­um sem stjórn­ar­formaður Fest­ar hf., en Ólöf seg­ir þetta vissu­lega gott skref.

Leyfi af kapí­talísk­um ástæðum

„Þetta er samt eitt lítið skref. Við vit­um síðan ekk­ert hvað þetta að stíga til hliðar þýðir, en tök­um því fagn­andi,“ seg­ir Ólöf og bæt­ir við að menn­irn­ir gætu þess vegna snúið til baka til sinna starfa eft­ir ein­hvern tíma.

„Þetta er líka rosa­lega kapí­talískt. Eins og seg­ir í yf­ir­lýs­ingu Hreggviðs að hann stigi til hliðar til að raska ekki mik­il­vægri starf­semi fyr­ir­tæk­is,“ seg­ir Ólöf og bæt­ir við að hann ætti auðvitað frek­ar að stíga til hliðar út af ásök­un­um Vítal­íu.

Ólöf er á báðum átt­um þegar hún er spurð hvort henni þyki umræðan í tengsl­um við þetta ákveðna mál vera til marks um breyt­ing­ar í þá átt að þolend­um sé frek­ar trúað.

Vill ekki vera of bjart­sýn

„Kannski er ákveðinn hóp­ur í sam­fé­lag­inu að líta inn á við. Al­mennt tel ég fólk ekki trúa þolend­um frek­ar, eða ég á alla vega eft­ir að sjá það. Ég vil ekki vera of bjart­sýn,“ seg­ir Ólöf og bend­ir á að málið sé búið að krauma und­ir niðri í tölu­verðan tíma:

„Vítal­ía grein­ir upp­runa­lega frá öllu á sam­fé­lags­miðlum 29. októ­ber. Þá sögðu flest­ir að þetta væri bull en síðan fer hún í þetta viðtal hjá Eddu,“ seg­ir Ólöf.

Sól­ey Tóm­as­dótt­ir, kynja- og fjöl­breyti­leika­fræðing­ur, sagði í Kast­ljósi í gær­kvöldi að öll­um sigr­um fylgdi bak­slag. Ólöf tek­ur und­ir það.

„Færsla Loga er dæmi um bak­slag. Hann tek­ur í raun og veru sömu aðferð og er alltaf notuð, sömu ófrum­leg­heit­in og menn sem hafa verið í sömu stöðu og sak­ar hana óbeint um lyg­ar.“

Ólöf seg­ir að læk frá Áslaugu Örnu Sig­ur­björns­dótt­ur vís­inda-, iðnaðar og ný­sköp­un­ar­ráðherra sé af­hjúp­andi.

„Gerendameðvirkn­in er svo víða. Það er svo auðvelt að segj­ast standa með þolend­um þar til maður þekk­ir ger­anda. Mér finnst að fólk í op­in­berri stöðu, eins og Áslaug Arna, þurfi að passa bet­ur upp á þetta því þetta hef­ur áhrif,“ seg­ir Ólöf og spyr einnig hvað her­ferðin „Ég trúi“ sem Áslaug tók þátt í merki þá:

„Þýðir þetta „ég trúi“, en bara ef ég þekki meint­an ger­and­ann ekki?“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert