Lyfjagjöf Ivermectin til barna varðar barnavernd

Lyfjastofnun mælir gegn því að nota Ivermectin sem forvörn eða …
Lyfjastofnun mælir gegn því að nota Ivermectin sem forvörn eða til meðferðar við Covid-19 sjúkdómnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Barna- og fjölskyldustofa er vakandi yfir málum sem varða lyfjagjöf til barna með sníkjudýralyfinu Ivermectin. Hefur það verið notað í því skyni að meðhöndla Covid-19 sjúkdóminn þó svo að Lyfjastofnun mæli gegn því. Þetta segir Páll Ólafsson, félagsráðgjafi og sviðstjóri fræðslu og ráðgjafasviðs Barna- og fjölskyldustofu.

 „Þessi umræða hefur komið upp annað slagið í barnaverndargeiranum út af einhverjum ákveðnum tilvikum sem hafa komið fram í fjölmiðlum og hafa komið þessari umræðu af stað,“ segir Páll í samtali við mbl.is

Hann kveðst ekki vera með nákvæmar upplýsingar um skaðsemi lyfsins en hins vegar fari það gegn ráðleggingum heilbrigðissérfræðinga að gefa börnum það í meðferð við Covid-19 sjúkdómnum. Ef foreldrar verði uppvísir af því að gefa börnum sínum röng lyf eða lyf gegn læknisráði þá sé mögulega ástæða fyrir barnavernd að skoða það nánar. Skiptir þá ekki málið hvort að um sé að ræða lyf gegn Covid-19 eða öðru.

„Ef að fólk hefur áhyggjur og telur að það sé verið að gefa börnum röng eða hættuleg lyf þá náttúrulega þarf að tilkynna það til barnaverndanefndar sem metur hvort að það sé ástæða til að kanna þau mál frekar.“

Líkur á skaða aukast ef lyf er ekki samkvæmt læknisráði

Í skriflegu svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn mbl.is kemur fram að ekki ætti að taka Ivermectin sem forvörn eða til meðferðar við Covid-19 sjúkdómi, nema í þeim tilfellum þar sem læknar hafa ávísað viðkomandi lyfi og uppruni þess sé í samræmi við lög og reglur.

Segir þar jafnframt að öllum lyfjum geti fylgt aukaverkanir, líka Ivermectin. Líkur á skaða geti einnig aukist sé lyf ekki tekið samkvæmt fyrirmælum læknis.

Lyfseðilsskylt lyf

Á Íslandi eru tvö lyf sem innihalda Ivermectin á markaði og eru þau bæði lyfseðilsskyld, annars vegar í töfluformi og hins vegar sem krem.

Þau lyf eru meðal annars notuð til meðhöndlunar á þráðormasýkingu í meltingarvegi, sýkingu í blóði sem forlifur valda vegna þráðormasýki í eitlum, maurakláða og þrymlum sem fylgja rósroða.

Kremið er eingöngu ætlað fullorðnum en öryggi taflanna hefur ekki verið staðfest hjá börnum sem vega minna en 15 kg, samkvæmt upplýsingum á lyfseðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert