„Jólabókaflóðið gekk mjög vel hjá okkur. Það var mikil sala og margir titlar sem kláruðust af lager fyrir jólin,“ segir María Rán Guðjónsdóttir, bókaútgefandi í Angústúru.
Bókaútgefendur virðast almennt ánægðir með sölu í nýafstöðnu jólabókaflóði. Þeir sem Morgunblaðið ræddi við segja að salan hafi gengið álíka vel og árið á undan og heilt yfir hafi árið 2021 komið vel út.
María Rán segir að bókin hafi sem fyrr verið vinsæl jólagjöf hjá landsmönnum. „Það var mikið fjör í bóksölu fyrir jólin og fólk fylgdist vel með því sem var að gerast. Mín tilfinning er að bóksala hafi ekki verið minni í þessu jólabókaflóði en árið á undan en það er auðvitað misjafnt milli ára hvað forlögin gefa út, sérstaklega þau minni. Við vorum til dæmis núna með stærri bækur í fyrsta skipti, Laugaveg og Kristínu Þorkels, og auk þess fleiri titla sem gengu vel. Ég myndi segja að það hafi verið vöxtur í sölu hjá okkur og almennt finnst mér eins og það hafi verið mikið að gera.“
Hún segir enn fremur að árið í heild sinni hafi verið ánægjulegt. „Helsti munurinn frá fyrra ári var kannski að kiljusalan gekk betur í sumar. Fólk fór meira til útlanda og það er vant því að kaupa kiljur fyrir flugið og ströndina. Það færðist ekki alveg eins mikið yfir á sumarbústaðina árið á undan, þá var fólk kannski meira í fjallgöngum.“
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.