Píramídahvatning ekki lausn við mönnunarvanda

Haraldur F. Gíslason formaður Félags leikskólakennara.
Haraldur F. Gíslason formaður Félags leikskólakennara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haraldur Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segir félagið telja að sú tillaga  að búa til „Tupperware píramídahvatningu“ vegna ráðninga starfsfólks í leikskóla sé langt frá því líklegt að ráðast að rót vandans. Hann segir að fjölga þurfi leikskólastarfsfólki og það sé ekki gert með slíkum lausnum.

Borg­ar­ráð samþykkti á þriðju­dag til­lögu skóla- og frí­stunda­sviðs um að auka stuðning við leik­skóla varðandi ráðning­ar- og mannauðsmál, meðal ann­ars með því að setja af stað verk­efni sem felst í því að greiða starfs­mönn­um leik­skóla fyr­ir að fá vini og ætt­ingja til starfa í skól­un­um.

Verk­efnið ber yf­ir­skrift­ina „Vertu með!“ og geng­ur út á það að ef starfsmaður fær vin eða ætt­ingja til starfa í leik­skóla fær viðkom­andi starfsmaður 75.000 kr. launa­auka. Áætlaður kostnaður verk­efn­is­ins er allt að fimm millj­ón­ir króna.

Ákvarðanir um að taka við yngri börnum aukið mönnunarþörf

„Þeir eru að búa til einhvern hvata til að fá fólk til að draga einhvern inn í starfið, þetta er bara skrýtin nálgun og þetta ræðst ekki á rót vandans. Okkur finnst þetta ekki gott,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is.

Hann segir stærsta verkefni sveitarfélaga lengi búið að vera að fjölga leikskólakennurum. 

Leikskólastigið hafi þróast hratt sem skólastig og að ákvarðanir samfélagsins um að taka sífellt við yngri börnum án þess að hugsa málið til enda hafa aukið vandann, aukið mönnunarþörf og hægt á hlutfallslegri fjölgun leikskólakennara þrátt fyrir mikla fjölgun í leikskólakennaranámi undanfarin ár.

„Starfsfólki við uppeldi og menntun í leikskólum hefur fjölgað úr 3.000 í 6.000 á árunum 1998 til 2019. Félag leikskólakennara þreytist ekki að benda á að of hraður vöxtur leikskólastigsins er helsta ástæða þess að ekki hefur tekist að fjölga leikskólakennurum hlutfallslega á þessu tímabili. Sveitarfélögin verða að fara að taka þau varnaðarorð alvarlega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert