Sjúklingum verði ekki vísað frá

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítala.
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítala. mbl.is/Ásdís

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, segir gjörgæslurnar akkilesarhæl spítalans um þessar mundir. Samkvæmt skilgreindri starfsemi eru þær „í raun fullar“. Landspítali starfar nú á neyðarstigi en búist er við fjölda nýrra innlagna á næstu dögum vegna Covid-19. Skerða verður þjónustu til annarra sjúklinga til að bregðast við.

„Ástandið er bara mjög erfitt. Það er erfitt að mjög mörgu leyti,“ segir Már í samtali við mbl.is.

Átta liggja nú á gjörgæslu með Covid-19 en samkvæmt spám Landspítala þykir líklegt að á annan tug sjúklinga verði þar vegna kórónuveirunnar eftir tvær vikur.

Aðspurður segir Már framboð öndunarvéla ekki koma til með að vera áhyggjuefni á næstu dögum en önnur þekkt vandamál eru enn sem áður verulega takmarkandi.

„Húsnæðið vinnur ekki með okkur og við höfum ekki nægilegan mannskap miðað við þær mönnunarforsendur sem hafa áður verið gefnar. Þannig nú erum við að reyna að aðlaga húsnæðið að þörfum sjúklinganna og vinna hörðum höndum að því að breyta skipulagi mönnunar.“

Spáin gæti mildast

Alls eru 37 sjúklingar sem liggja inni á Landspítala með Covid-19. Í gær voru sjö innlagnir og tvær útskriftir. Samkvæmt spálíkani sem byggir á gögnum Landspítala, og var opinberað fjölmiðlum í gær, er líklegt að um 60 sjúklingar verði á spítala eftir sirka tvær vikur og um 20 á gjörgæslu vegna Covid-19. Svartsýn spá gerir þó ráð fyrir hátt í 90 sjúklingum og hátt í 30 á gjörgæslu.

Að sögn Más gæti þó verið að sú spá hafi mildast aðeins þar sem nýlega hafi verið tekið til skoðunar að miða frekar við 0,5% innlagnatíðni vegna Ómíkron-afbrigðisins, sem er aðeins lægri en innlagnatíðnin sem við höfum verið að horfa til fram að þessu. Byggði sú á gögnum frá Danmörku og kveður hún á um að 0,7% þeirra sem smitast af Ómíkron-afbrigðinu leggist inn á spítala.

Gæti þetta þó komið til með að breytast aftur.

Um þriðjungur sjúklinga inni vegna annarra vandamála

Stendur nú til að færa sjúklinga Lungnadeildar (A6) á aðrar deildir spítalans og má því búast við að allt að 16 legurými til viðbótar opnist fyrir sjúklinga með Covid-19.

„Í þessum fasa getum við farið upp í allt að 40 sjúklinga á þessum þremur legudeildum, A7, A6 og B7. Síðan verður bara tekið eins og þarf fyrir fólk.

Þetta er bara hliðrun sem þýðir það – af því að spítalinn er endanleg stærð - að þá hliðrast önnur verkefni til. Það er það sem við erum að glíma við núna í þessu neyðarástandi,“ segir Már og bætir við að álagið vegna Covid-sjúklinganna hafi í för með sér mikla röskun á gjörgæslu- og skurðstofustarfsemi, svo eitthvað sé nefnt.

Hann bendir jafnframt á að um þriðjungur sjúklinga á spítala með Covid-19 liggi inni vegna annarra vandamála og þurfi því sérhæfða aðstoð annarra kjördeilda. Liggja þeir sjúklingar ekki í þeim rýmum sem minnst hefur verið á hér að ofan. 

„Ef einhver kemur inn sem þarf að fara í skurðaðgerð og við skimun á leið inn á spítalann reynist hann vera með Covid þá er hann ekki Covid-veikur. En það krefur um meiri viðbúnað á þeirri starfstöð heldur en hann ef hann væri ekki með Covid. Það þyngir róðurinn.“

„Eitthvað verður undan að láta“

Liggur fyrir hvernig hægt verði að bregðast við ef svartsýnisspár um 90 innlagnir ganga eftir?

„Við munum bregðast við. Ég get ekki sagt hvernig,“ svarar Már en ítrekar þó að engum verði vísað frá heldur muni starfsfólk spítalans halda áfram að hliðra sjúklingum og beita þeim aðgerðum sem lýst hefur verið hér að ofan.

„Við munum taka á móti öllum sem þarf að taka á móti en það þýðir það að eitthvað verður undan að láta.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert