Ákæruvaldið hefur ákært karl og konu fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Þau eru meðal annars sökuð um að hafa flutt fíkniefni með flutningaskipi frá Danmörku til Ísland. Ákæran er í þrem liðum.
Þetta kemur fram í ákærunni sem mbl.is hefur undir höndunum.
Í fyrsta ákærulið eru ákærðu sökuð um að hafa staðið að innflutningi á 3.979,89 grömmum af kókaíni sem var ætlað til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.
Ákærðu eru sökuð um að hafa falið fíkniefni í gólfi bifreiðar sem þau sendu frá Danmörku til Íslands með flutningaskipi. Fíkniefnin fundust í bifreiðinni við tollskoðun á Íslandi þann 20. september og skipti lögreglan fíkniefnunum út fyrir gerviefni.
Þá eru ákærðu sögð hafa sótt bifreiðina þann 22. september á tollsvæði Smyril Line í Þorlákshöfn og ekið henni að heimili þeirra í Reykjavík. Daginn eftir, þann 23. september, voru þau bæði handtekin.
Í öðrum og þriðja lið ákærunnar eru ákærðu sökuð um að hafa haft í vörslum sínum 271,30 grömm af kókaíni, 5,58 grömm af vímuefninu MDMA, 1.424 stykki af vímuefninu MDMA, 3,32 grömm af kókaíni og 0,65 grömm af maríjúana sem lögregla fann við húsleit.