Tveir heimilismenn á hjúkrunarheimilinu Seltjörn á Seltjarnarnesi greindust smitaðir af Covid-19 í dag. Heimilið er rekið af Sunnuhlíð.
Þetta staðfestir Kristján Sigurðsson, forstjóri Sunnuhlíðar, í samtali við mbl.is.
Ekki er komin niðurstaða úr öllum PCR-prófunum sem tekin voru í dag en búist er við þeim seinni partinn í dag.
Svanlaug Guðnadóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Seltjörn, segir í pósti til aðstandanda að heimilismennirnir séu ekki alvarlega veikir.
„Sem betur fer er ekki um alvarleg veikindi að ræða og við vonum að þessar þrjár bólusetningar hjálpi okkur öllum.“