Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um kröfu sóttvarnalæknis þess efnis að karlmaður sæti sóttkví frá 30. desember 2021 til 13. janúar 2022, en ákvörðun falli niður gangist hann undir PCR-próf fyrr.
„Það má lesa það úr úrskurðinum að Landsréttur telji honum ekki vorkunn að fara í þetta PCR-próf og stytta sína sóttkví,“ segir Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður mannsins, í samtali við mbl.is
Maðurinn þurfti að sæta sóttkví frá 11. desember þegar dóttir hans greindist smituð og síðan frá 16. desember þar sem eiginkona hans greindist. Þá greindist sonur hans 30. desember og mun hann að öllu líkindum því ljúka einangrun í dag, að því er segir í úrskurðinum.
Því segir í úrskurðinum að maðurinn muni að öllu óbreyttu eiga þess kost að losna úr sóttkví á morgun, að fenginni neikvæðri niðurstöðu úr PCR-prófi.
„Það er alveg ljóst að dómstólar eru ekki að gera sérstaklega miklar kröfur á að þeir sem standa að þessum sóttkvíarákvörðunum leggi fram einhver sérstök gögn um þetta. Það er gengið út frá því að það sem liggur til grundvallar að þessum frelsisskerðingum sé allt satt og rétt,“ segir Gunnar.
„Þá eru það vonbrigði að ekki hafi verið farið dýpra í lögfræðina, hvort að málsmeðferðin hafi verið rétt. Því að ég held að það hafi alveg komið í ljós að ekki var farið eftir henni eins og lögin kveða á um. Það er hins vegar ekki afstaða dómstóla.“
Að sögn Gunnars er ekki heimild í lögum til að áfrýja málinu til Hæstaréttar.