Frá og með 1. janúar 2022 fluttist veghald og þar með ábyrgð á rekstri og viðhaldi nokkurra vega frá Vegagerðinni til Reykjavíkurborgar. Vegirnir sem um ræðir eru Mýrargata, Geirsgata, Kalkofnsvegur, Stekkjarbakki, Höfðabakki og Gullinbrú, frá Smiðjuvegi að Hallsvegi.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að samtals séu þetta um sex km vega, svokallaðra skilavega, en við gildistöku vegalaga færðust ákveðnir vegir úr flokki stofnvega og yfir í flokk sveitarfélagsvega.
Nokkrar atlögur hafa verið gerðar að því að færa veghald á þessum vegum til viðkomandi sveitarfélags en það hefur strandað á ýmsu, m.a. ósamkomulagi vegna ástands veganna.
Það er ekki fyrr en nú að loknum samningi Vegagerðarinnar fyrir hönd ríkisins og Reykjavíkurborgar að veghald færist til borgarinnar. Samningurinn var lagður fyrir borgarráð í gær, 6. janúar, og samþykktur.
Í tilkynningunni frá Reykjavíkurborg segir einnig að borgin gerir fyrirvara í samningum við þann þátt sem lýtur að fjármögnun reksturs og viðhalds umræddra vega til framtíðar.
„Í greinargerð með lögum nr. 14/2015 kemur fram sá vilji löggjafans að „ekki [sé]gert ráð fyrir að í yfirfærslunni felist aukinn kostnaður fyrir sveitarfélögin“ og að „gert er ráð fyrir að það fjármagn sem nú er á hendi Vegagerðarinnar vegna veghalds þessara vega færist yfir til sveitarfélaganna samhliða yfirfærslunni á grundvelli samninga.“ Samningar náðust ekki um þennan hluta,“ segir í tilkynningunni.
„Áskilur borgin sér allan rétt til að leita allra leiða til að sækja leiðréttingu á þessu.“