Umdeilt læk ráðherra

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er ein þeirra sem líkaði við yfirlýsingu …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er ein þeirra sem líkaði við yfirlýsingu Loga. Samsett mynd

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, hefur sætt mikilli gagnrýni eftir að hafa lækað færslu á Facebook þar sem Logi Bergmann Eiðsson, útvarpsmaður á K100, lýsti yfir sakleysi sínu í máli þar sem hann hefur verið sakaður um kynferðisofbeldi gagnvart ungri konu.

Vakti það enn harðari viðbrögð þegar Logi lokaði fyrir athugasemdir við færsluna í kjölfar þess að netverjar fóru að vekja athygli á umræddu læki þar.

Vítal­ía Lazareva, unga konan, steig nýlega fram í hlaðvarpinu Eigin konur þar sem hún lýsti í viðtali við Eddu Falak ofbeldisfullu ástarsambandi við giftan mann sem einnig er þjóðþekktur. Vítalía nafngreindi hann ekki í þættinum en maðurinn er sagður vera Arnar Grant. 

Í hlaðvarpinu kemur meðal annars fram saga þar sem karlmaður, sem Vítalía hafði áður nafngreint sem Loga, er sakaður um að hafa gengið inn á Vítalíu og ástmann hennar í miðjum ástaratlotum á hótelherbergi í golfferð sem þau voru saman í. Á ástmaðurinn [Arnar] að hafa keypt þögn mannsins gegn því að veita honum kynferðislegan greiða með Vítalíu, gegn hennar vilja.

Í yfirlýsingunni í gær játar Logi að hafa farið yfir mörk þar sem hann gekk inn á hótelherbergi sem tilheyrði honum ekki í leyfisleysi en neitar þó öðrum sökum sem bornar voru á hann.

Færslan vakti mikla athygli og voru margir fljótir að bregðast við með því að setja læk eða hjarta. Meðal annars Áslaug Arna, sem er einnig fyrrverandi dómsmálaráðherra, og hafa margir túlkað lækið sem svo að hún sé að sýna stuðning við Loga eða taka afstöðu gegn Vítalíu í málinu. Hefur það vakið hörð viðbrögð netverja.

Þess ber að geta að þegar betur var að gáð í morgun kom fram að mun fleiri virðast hafa brugðist við færslunni með reiðu broskallstjákni.

Þá vakti það einnig athygli að sálfræðingurinn Hafrún Kristjánsdóttir hafi líkað við umrædda færslu Loga en hún sat í nefnd á vegum ÍSÍ sem sá um að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna kynferðisofbeldismála sem tengst hafa leikmönnum í landsliðum Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert