Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í nýjum pistli sínum á covid.is að faglegar ástæður séu fyrir breyttum reglum á sóttkví.
Í gær tóku gildi breyttar reglur um sóttkví. Reglurnar fela í sér, að nú eru þeir sem fengið hafa örvunarskammt undanþegnir hefðbundinni sóttkví en þurfa að undirgangast ákveðnar reglur í fimm daga sem lýkur með PCR-prófi.
Ákveðnar sérreglur geta þó nú eins og áður gilt um viðkvæma starfsemi eins og á heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum.
„Faglegar ástæður fyrir þessum nýju reglum eru þær, að nýleg rannsókn í New England Journal of Medicine sem birt var 5. janúar sl. sýnir, að tvíbólusettir eru bæði ólíklegri til að taka smit og smita aðra,“ segir í pistli Þórólfs.
Hann segir að í því tilfelli hafi verið um að ræða smit af völdum Alfa- og Delta-afbrigðis kórónaveirunnar en líklegt sé að það sama gildi um Ómíkron-afbrigðið, sérstaklega hjá þríbólusettum.
Reglurnar gilda einnig fyrir þá sem voru búnir að vera í sóttkví fyrir gildistöku.
„Þeir sem eru útsettir fyrir smituðum einstaklingi munu nú fá skilaboð frá rakningateymi almannavarna um þessar nýju reglur og bera þannig sjálfir ábyrgð á framkvæmd reglnanna séu þeir þríbólusettir.“