„Stundum virðist það hafa verið ákveðin skemmtun hjá fólki að stríða eða níðast á þessum einstaklingum, sem augljóslega liðu fyrir það,“ segir Marín Árnadóttir sem hefur safnað saman frásögnum um fólk á fyrri tíð sem þótti sérkennilegt.
Síðastliðin ár hef ég verið að safna saman frásögnum af nafngreindum einstaklingum sem töldust vera óvenjulegir á einhvern hátt á fyrri tíð. Fólk sem þótti vera óvenjulegt vegna til dæmis ýmiss konar fötlunar, andlegrar eða líkamlegrar, eða skerðingar, vegna veikinda, vegna óhefðbundinna lífshátta eða furðulegs háttalags. Margir flakkarar eru til dæmis meðal fólks í skrá minni sem ég hef tekið saman af frásögnum af þessu fólki og birtist í bókinni,“ segir Marín Árnadóttir sagnfræðingur, en hún er ein þeirra sex sagnfræðinga sem eru höfundar efnis í nýrri bók sem heitir Þættir af sérkennilegu fólki. Bókin er hluti af ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar og í henni er m.a. að finna mannlýsingar á eftirlýstu fólki, fátæku fólki og fólki sem var hornreka í samfélaginu, og hvernig því tókst að lifa af. Bókin er tilraun til að skilja „menningu fátæktar“.
„Ég hef aðallega verið að nýta mér heimildir á borð við þjóðlegan fróðleik, sem er ýmiss konar fróðleikur um liðna tíða, aðallega frá tímum íslenska bændasamfélagsins, en stór hluti þess eru svokallaðir þættir af sérkennilegu fólki. Þetta var gífurlega vinsælt efni hér áður fyrr og mikið af því birt í blöðum, tímaritum og bókum, og má einnig finna í handritum í handritasöfnum. Ég hef aðallega verið að skoða prentaðar heimildir frá upphafi tuttugustu aldar, þar sem segir mest frá fólki sem uppi var á nítjándu öld, og af því má ljóst vera að Íslendingar hafa lengi verið áhugasamir um það sem er furðulegt, og þar á meðal fólk sem var á einhvern hátt öðruvísi en aðrir. Þeir virðast hafa sýnt slíku fólki mikla athygli en ekki alltaf á jákvæðan hátt, sem ég er einmitt að skoða í mínum rannsóknum. Í skrá minni eru hátt upp í 300 frásagnir af sérkennilegum körlum og konum, og voru flest þeirra vissulega í hópi þeirra lægst settu, en þar eru líka prestar og aðrir einstaklingar úr efri stéttum.“
Marín segir að eftir því sem leið á heimildasöfnun sína, þá hafi hún farið að taka eftir ákveðnum sameiginlegum atriðum í frásögnunum.
„Annars vegar ákveðnum frásagnarhætti þar sem háðslýsingar af þessu fólki voru áberandi, og hins vegar ákveðnum lýsingum á atvikum og samskiptum milli þessa fólks og samferðamannanna. Þar var oft verið að lýsa stríðni, hrekkjum og aðkasti í garð fólks sem þótti sérkennilegt. Þetta fólk varð fyrir háði og spotti, eitthvað sem í dag væri hægt að flokka undir einelti og ofbeldi, stundum mjög gróft ofbeldi. Í sögunum þar sem segir frá þessu fólku sem tilheyrði jaðarhópum þess tíma, þá er þessum atvikum lýst á fremur léttúðugan hátt, talað um að það sé góðlátlegt gaman eða saklaus stríðni. Stundum virðist það hafa verið ákveðin skemmtun hjá fólki að stríða eða níðast á þessum einstaklingum, sem augljóslega liðu fyrir það, það kemur víða skýrt fram. Grínið var oftar en ekki á kostnað þeirra sem minna máttu sín. Ég les þessar frásagnir upp á nýtt með því að nota nútímahugtök eins og einelti og ofbeldi sem ákveðin greiningartæki, til að átta mig betur á því sem er verið að lýsa. Með þeirri aðferð koma í ljós mun alvarlegri hliðar á daglegu lífi og aðstæðum fólks á jaðri íslensks samfélags fyrri tíðar.“
Marín segir að stundum megi greina ákveðinn tón hjá sagnariturunum sem skrásettu sögur um sérkennilegt fólk sem var langt fyrir neðan þá í virðingarstiga samfélagsins.
„Sagnaritararnir eru að flokka fólk með sínum skrifum, til dæmis hana Lúsa-Solveigu, en hún tilheyrir kafla sem heitir „Heimskingjar, fáráðlingar og flakkarar“ í riti frá 20. öld. Þetta kaflaheiti segir svo mikið. Skrásetjararnir höfðu mikið vald yfir því hvernig litið var á þessa einstaklinga og líka hvernig þeir koma okkur fyrir sjónir, þegar við lesum þetta miklu seinna.“
Marín segir að margar frásagnirnar innihaldi átakanlegar lýsingar á aðstæðum og úrræðaleysi.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 6. janúar.