Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna veðurs annað kvöld, sem gildir fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa og miðhálendið.
Á höfuðborgarsvæðinu gildir viðvörunin frá klukkan 22 til 02 aðfaranótt mánudags. Búast má við suðaustan 18-25 m/s, en hvassast verður á Kjalarnesi og snarpar vindhviður víða á svæðinu. Nauðsynlegt að festa vel lausmuni utandyra.
Á Suðurlandi spáir Veðurstofan stormi eða roki frá kl. 21 til 2 sömu nótt. Suðaustan 20-28 m/s, hvassast undir Eyjafjöllum að Mýrdal með vindhviðum um og yfir 45 m/s.
Tryggja þurfi lausamuni utandyra og veðrið verði varasamt til ferða.
Við Faxaflóa gildir viðvörunin frá kl. 21 til 4 um nóttina. Suðaustan 18-25 m/s, hvassast á Reykjanesi, Kjarlarnesi og við Hafnarfjall með vindhviðum að 40 m/s.
Tryggja þurfi lausamuni utandyra og varað er við ferðum á tímabilinu.
Á miðhálendinu er spáð stórhríð frá kl. 18 annað kvöld til 8 að morgni mánudags.
Búist er við suðaustan 23-30 m/s með snjókomu eða skafrenningi þar sem skyggni verður nánast ekkert. Alls ekkert ferðaveður.