Ara sagt upp

Ari Edwald.
Ari Edwald. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ara Edwald, fram­kvæmda­stjóra Íseyj­ar út­flutn­ings, dótt­ur­fé­lags Auðhumlu, hef­ur verið sagt upp störf­um. Upp­sögn­in tók strax gildi.

Frá þessu grein­ir stjórn Íseyj­ar í tölvu­pósti sem send­ur var til fé­lags­manna sam­vinnu­fé­lags­ins Auðhumlu í kvöld, en Auðhumla á 80% hlut í Mjólk­ur­sam­söl­unni.

„Í síðustu viku birt­ist í fjöl­miðlum um­fjöll­un þar sem fram­kvæmda­stjóri ÍSEYJ­AR út­flutn­ings, auk þriggja annarra nafn­greindra aðila, er ásakaður um þátt­töku í ósæmi­legri kyn­ferðis­legri hátt­semi gagn­vart ungri konu í lok árs 2020,“ seg­ir í tölvu­póst­in­um.

Í kjöl­farið hafi fram­kvæmda­stjór­inn farið í tíma­bundið leyfi frá störf­um.

Stjórn­in fundað oft um málið

„Óná­kvæm­ar upp­lýs­ing­ar um fram­an­greint bár­ust stjórn í lok októ­ber 2021. Málið var strax tekið al­var­lega vegna þess mögu­leika að upp­lýs­ing­arn­ar væru rétt­ar, og hef­ur stjórn fé­lags­ins fundað oft um málið, bæði með fram­kvæmda­stjóra og án hans. Málið var enn til meðferðar í stjórn í síðustu viku þegar vatna­skil­in urðu. Eins og all­ir gera sér grein fyr­ir eru mál af þess­um toga bæði al­var­leg og erfið,“ seg­ir enn frem­ur í tölvu­póst­in­um.

„Þær ásak­an­ir sem nú eru komn­ar fram á hend­ur fram­kvæmda­stjóra eru með þeim hætti að stjórn fé­lags­ins taldi sér skylt, að vel at­huguðu máli, að segja upp ráðning­ar­samn­ingn­um við hann, með áskilnaði til rift­un­ar síðar ef til­efni gefst til, með hliðsjón af hags­mun­um fé­lags­ins, starfs­fólks og viðskipta­mönn­um þess, og ekki síður meint­um þolanda.“

Und­ir þetta skrifa þau Elín Mar­grét Stef­áns­dótt­ir stjórn­ar­formaður og meðstjórn­end­urn­ir Ágúst Guðjóns­son og Sig­ur­jón Rún­ar Rafns­son.

Sum­ar­bú­staðarferð

Ari er einn þeirra manna sem hin 24 ára gamla Vítal­ía Lazareva nafn­greindi á In­sta­gram síðla árs 2021, þar sem hún tjáði sig um kyn­ferðisof­beldi sem hún kvaðst hafa verið beitt í sum­ar­bú­staðarferð í des­em­ber 2020.

Ný­lega kom Vítal­ía fram í viðtali í hlaðvarpsþætt­in­um Eig­in kon­ur þar sem hún lýsti at­b­urðinum án þess þó að nafn­greina menn­ina sem hún sak­ar um að hafa brotið á sér. Ekki er ljóst hvað Ari er sakaður um en í færslu sem Vítal­ía birti á In­sta­gram í októ­ber er Ari nefnd­ur ásamt þrem­ur öðrum mönn­um.

Í þætt­in­um lýs­ir hún því hvernig hóp­ur manna mun hafa brotið kyn­ferðis­lega á henni í heit­um potti í sum­ar­bú­staðarferðinni. Á þeim tíma hafi hún verið í ást­ar­sam­bandi með 48 ára göml­um kvænt­um manni. All­ir þeir sem hún sak­ar um að hafa brotið á sér í pott­in­um munu vera vin­ir manns­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert