Áætlað er að útgjöld Fæðingarorlofssjóðs milli ársins 2021 og þess sem nú var að ganga í garð aukist um allt að tvo milljarða króna. Þarna ræður fjölgun fæðinga og eins að nýbakaðir foreldrar og þá sérstaklega feður nýta réttindi sín betur en áður. Einnig hafa greiðslur úr sjóðnum verið hækkaðar. Útlit er sömuleiðis fyrir að þjóðin fjölgi sér ágætlega á nýju ári, sé horft til upplýsinga frá Landspítala og Vinnumálastofnun, sem hefur umsjón með Fæðingarorlofssjóði.
Í lok september sl. voru fæðingar á landinu á árinu orðnar 3.720. Á tímabilinu júlí til og með september í fyrra voru fæðingarnar 1.310 og hafa ekki verið jafn margar frá því byrjað var að taka ársfjórðungstölur saman fyrir um áratug. Sé miðað við að fjöldi fæddra barna á síðustu þremur mánuðum ársins 2021 hafi verið svipaður og hina fyrri níu á árinu hafa börnin þá orðið rúmlega 5.000. Endanlegar tölur frá Hagstofu um þetta koma með vorinu.
Á Landspítalanum voru fæðingar í fyrra alls 3.456 eða um 70% þess sem var á landsvísu. Flestar voru þær í júlí, alls 334, talsvert fleiri en búist var við. Fæðingar í nóvember voru 278 og 246 í desember. Ætlaður fjöldi fæðinga á næstunni, skv. eftirliti með barnshafandi konum, liggur ekki fyrir. „Mér sýnist líta út fyrir að fjöldi fæðinga á næstunni verði svipaður og verið hefur síðustu mánuði. Að minnsta kosti er fæðingum ekki að fækka,“ segir Birna Gerður Jónsdóttir, yfirljósmóðir á fæðingardeild, í samtali við Morgunblaðið í gær.
Oft er sagt – bæði í gamni og alvöru – að frjósemi fólksins verði aldrei meiri en þegar harðnar á dalnum og í stríðsátökum. Um 5.000 fæðingar á Íslandi í fyrra, og það í miðjum kórónuveirufaraldri, fylgir fyrrgreindri kenningu. Fjöldinn er raunar svipaður og var fyrst eftir efnahagshrunið en árið 2009 voru fædd börn á landinu 5.026 og 4.907 árið eftir.
Nýbakaðir foreldrar njóta nú greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í alls 12 mánuði og geta skipt þeim tíma á milli sín, samkvæmt nánari útfærslum og reglum. Á mánuði eru 600 þúsund krónur á mánuði hámarksgreiðslur úr sjóðnum, sem fjármagnaður er með tryggingagjaldinu sem atvinnurekendur greiða. „Greiðslur úr sjóðnum hafa verið hækkaðar og réttindi aukin,“ segir Leó Örn Þorleifsson, sviðsstjóri réttindasviðs Vinnumálastofnunar.
„Forveri núgildandi laga um fæðingarorlof gekk í gildi árið 2000 og nú er fólk fætt um aldamótin sjálft að komast á barneignaraldur. Sjálft hefur það þá vanist og fundist sjálfsagt að njóta samvista við báða foreldrana á fyrstu misserunum – og bjóða sínum eigin börnum slíkt. Þetta á ekki síst við um feðurna sem hafa komið sterkir inn hjá okkur að undanförnu,“ segir Leó Örn.
Nánari umfjöllun er í Morgunblaðinu sem kom út 6. janúar.