„Lífeyrissjóðunum, þeim var bara skítsama“

Dagný Magnúsdóttir varð að loka veitingastað sínum Hendur í Höfn …
Dagný Magnúsdóttir varð að loka veitingastað sínum Hendur í Höfn í Þorlákshöfn vegna erfiðleika í tengslum við faraldurinn. Hún segir síbreytilegar sóttvarnaaðgerðir og kalt viðmót lífeyrissjóðanna hafa ráðið úrslitum. Samsett mynd

Dagný Magnúsdóttir hafði rekið glervinnustofuna Hendur í Höfn á Þorlákshöfn síðan árið 2010 og veitingastað undir sama nafni síðan 2013. Hún varð að loka síðasta haust vegna erfiðleika sem komu til í kjölfar heimsfaraldursins.

Hún kennir bæði síbreytilegum sóttvarnaráðstöfunum stjórnvalda um hvernig fór en ekki síður lífeyrissjóðum landsins, sem hún segir að hafi ekkert gefið eftir þegar þrengdi að atvinnurekendum í faraldrinum. 

Dagný þurfti að halda starfsfólki sínu í von og óvon um að fá vinnu, hvort sem var til skamms eða langs tíma, nokkuð sem hún segir að hafi tekið virkilega á. 

„Maður byrjaði náttúrulega bara að sprikla um leið og þetta kom, bara eins og allir aðrir gerðu líka. Og ég vildi auðvitað halda í fólkið mitt, af því ég var með svo einstaklega gott fólk. En það er mjög erfitt þegar veltan minnkar svona, jafnvel þótt þú þurfir að borga ekki nema hálf laun,“ segir Dagný við mbl.is.

Notaleg stemning var á Höndum í Höfn. Dagný lýsir því …
Notaleg stemning var á Höndum í Höfn. Dagný lýsir því að í hávegum hafi verið haft að allir fengju eitthvað við sitt hæfi, óháð ofnæmi eða lífstíl. Ljósmynd'/Dagný Magnúsdóttir

Þungbært að geta ekki veitt öryggi

Ástæða þess að Dagný varð að loka er tvíþætt að hennar sögn: Síbreytilegar sóttvarnatakmarkanir og kalt viðmót lífeyrissjóða landsins. Hún segist bera virðingu fyrir sóttvarnaaðgerðum en það hafi verið þrautinni þyngri að vinna eftir þeim þegar þær breyttust jafnhratt og raun bar vitni síðasta haust.

Stundum hafi þannig margir starfsmenn geta verið á vakt og nóg af vinnu fyrir alla en síðan eins og hendi væri veifað þurfti hún ekki lengur á sama mannskap að halda. Eins og fyrr segir var þetta Dagnýju mjög þungbært, að geta ekki veitt starfsfólki sínu öryggi. 

„Það er ekkert jafnvægi. Þú veist um kvöld að á morgun er spurning hversu mikið af fólkinu ég verð að láta fara,“ segir Dagný. 

Dagný og gestur sem vart þarf að kynna: Frú Vigdís …
Dagný og gestur sem vart þarf að kynna: Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Ljósmynd/Dagný Magnúsdóttir

Stjórnvöld gerðu margt gott, ólíkt lífeyrissjóðunum

Þrátt fyrir óánægju með breytileika í sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda segir Dagný að margt gott hafi komið út úr þeim aðgerðum sem ráðist var í. Hún segir að hafi fólk verið að gera sitt besta í erfiðum aðstæðum. 

„Lífeyrissjóðirnir hins vegar. Þeir eru stóri Akkilesarhællinn í þessu og það er eitthvað svo viðkvæmt mál að ræða. Þar gastu ekki samið.“

Dagný útskýrir að gangvart stjórnvöldum hafi verið hægt að semja um margt þegar illa fór að ára. Til dæmis hafi verið hægt að semja um frest ef ekki var til nægt fjármagn til þess að skila virðisaukaskatti og þannig hafi verið komið til móts við fólk.

„Lífeyrissjóðunum, þeim var bara skítsama.“

Dagný segist vel tengd inn í veitingabransann á Íslandi og segir að þar heyri hún svipaðar sögur og þá sem hún hefur að segja. 

„Það eru margir svo reiðir út í lífeyrissjóðina af því þeir veita ekkert svigrúm og engin úrræði.“

Dagný og Eva Laufey Kjaran stjörnukokkur á góðri stundu á …
Dagný og Eva Laufey Kjaran stjörnukokkur á góðri stundu á Höndum í Höfn. Ljósmynd/Dagný Magnúsdóttir

Dreymir um að vinna í fyrirtæki sem hún stofnaði

Dagný lýsir því ansi skýrt hvernig baráttan við aðstæðurnar sem faraldurinn skapaði tóku á. Hún segir að mjög þungbært hafi verið að stofna fyrirtæki, með blóði, svita og tárum, sem síðan fjarar bara út og glutrast niður. 

Hún lítur þó fram á veginn og ætlar að sinna sjálfri sér nú þegar allt er um garð gengið.

Það er á Dagnýju að heyra að henni hafi þótt einna erfiðast að sjá á eftir því starfsfólki sem glæddi veitingastað hennar lífi. Hún lýsir því að alltaf hafi verið mikið líf og fjör og nóg að gera, sérstaklega á sumrin þegar erlendu ferðamennirnir voru á kreiki. Söknuðurinn verður því mikill.

„Draumurinn fyrir samfélagið í heildinni væri auðvitað að einhver tæki við Höndum í Höfn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka