Spáð er miklu roki syðst á landinu bæði í kvöld og nótt og gular viðvaranir víðsvegar í gildi. Að sögn Þorsteins V. Jónssonar, vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, er nú vaxandi suðaustan átt og hvessir með kvöldinu og gengur í storm í kvöld.
Mikið rok verður undir Eyjafjöllum og má jafnvel búast við 28 m/s þar, þá mun rigning fylgja samhliða rokinu. Hvassast verður á hálendinu en þar verður aftakaveður og stórhríð. „En það eru væntanlega ekki margir á ferðinni þar núna,“ bendir Þorsteinn á.
Að sögn Þorsteins mun veðrið síðan smám saman færast norður- og austur á bóginn. Það verður talsverð rigning á suðasturlandi og Austfjörðum og það mun jafnvel snjóa á fjallvegum á Austfjörðum.
Þá verður stormur á Norðurlandi í nótt og þó það verði ekki mikil úrkoma getur eitthvað skafið á fjallvegunum.
„Þetta verður gengið niður í fyrramálið. Þetta er smá svona næturskellur,“ segir Þorsteinn.
Þá segir Þorsteinn það erfitt að segja til um hvort það verði nokkuð ferðaveður enda fólk ekki mikið að ferðast á nóttunni.
Veðurstofan biður fólk að huga vel að umhverfinu hjá sér ef það er með einhverja lausa muni úti, líkt og útigrill og byggingarefni og reyna þá að koma þeim í skjól.
Þorsteinn bendir á að upplýsingar um veður og viðvaranir megi finna á vefsíðu Veðurstofunnar vedur.is. Þá sé einnig ágætt að fylgjast með ástandi vega á Vegagerdin.is ef fólk hyggst ferðast.