Telur sektina vafasama og merkingarnar óljósar

Bílum er lagt austan megin við Frakkastíginn sem er bannað, …
Bílum er lagt austan megin við Frakkastíginn sem er bannað, en merkingar í götunni eru þó enn til staðar. Ljósmynd/Aðsend

Merkingar um að bannað sé að leggja bílum austanvert á Frakkastíg í Reykjavík milli Njáls- og Grettisgötu eru ófullnægjandi. Þegar hvítar línur á götunni, sem marka bílastæðin, eru ekki fjarlægðar vaknar sú spurning að Bílastæðasjóður Reykjavíkur sé vísvitandi að leggja gildrur fyrir ökumenn og valda þeim útgjöldum að óþörfu. Þetta segir í erindi sem vegfarandi sendi sjóðnum á dögunum eftir að hafa fengið 10 þúsund króna sekt.

Málavextir eru þeir að nærri jólum lagði vegfarandi bíl sínum á fyrrgreindum stað og taldi sig vera með allt á hreinu. Ekkert segir að þarna sé bannað að leggja bílum á þessum stað „...annað en eitt skilti sem lítið ber á,“ eins og viðkomandi sagði í bréfi til borgarinnar. Greinilegt sé að fólk taki ekki eftir því eða þekki ekki að þarna séu bílastæði bönnuð – og mikið sé raunar um að útlendingar leggi bílum á þessu svæði.

Ekki fallið frá sekt

„Fjarlægja þarf hvítu línurnar sem marka bílastæðin nú þegar. Einnig væri bæði sjálfsagt og eðlilegt að keilur yrðu settar í óleyfilegu stæðin – alla vega þar til búið er að fjarlægja hvítu bílastæðalínurnar,“ sagði bréfritari.

Bílastæðasjóður svaraði bréfinu síðastliðinn þriðjudag og segir að rétt hafi verið staðið að málum. Ekki verði fallið frá sektinni. Merkingar á umræddum kafla á Frakkastíg séu til staðar, en ekki er þó í bréfinu tekin afstaða til þess hvort þær megi vera skýrari eða betri.

Keilur ekki heimilaðar

„Þarna eru skilti sem marka skýrt að óheimilt er að leggja á milli þeirra. Það stendur til að afmá yfirborðsmerkingu með vorinu þegar veður leyfir. Ekki er unnt að setja keilur eða aðrar hindranir þar sem óheimilt er að leggja af því að það er akstursleið – þegar vörulosunarstæði sem er hinum megin götunnar er í notkun,“ segir Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, í svari til Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert