Biðu í flugvélum vegna hvassviðris

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vegna mikils hvassviðris kom sú staða upp í gærkvöldi að farþegar þurftu að bíða í einhvern tíma í flugvélum sínum eftir því að komast frá borði.

Einhverjum flugferðum var jafnframt aflýst vegna veðurs, að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia.

Vísir greindi frá því að farþegar Play Air hefðu setið fastir í einn og hálfan tíma um borð í vél frá Kaupmannahöfn og ekki fengið að yfirgefa vélina fyrr en um eittleytið í nótt. Einnig kom fram að farþegarnir hefðu átt að fá farangurinn sinn afhentan í dag.

Flugvél Play.
Flugvél Play. Ljósmynd/Aðsend

„Það var töluverður vindhraði þarna og vont veður á þessum tíma,“ segir Guðjón og bætir við að þegar vindhraðinn fer yfir ákveðin mörk séu landgangar ekki notaðir af öryggisástæðum.

Það sama gildir um stigabíla en þeir eru reknir af Airport Associates og Icelandair. Þessi sömu fyrirtæki sjá einnig um að hlaða og afhlaða flugvélar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert