Rebekka Líf Ingadóttir
Bólusetning barna á aldrinum fimm til ellefu ára fer fram í dag í Laugardalshöll. Fyrsti hópur mætir klukkan tólf og verður bólusett þvert á allan aldur til þess að koma í veg fyrir að börn þekki hvert annað.
„Við tökum þvert á allan aldur, það var ósk um það til þess að geta ekki þekkt hvert annað og svoleiðis, þannig að við tökum bara alla sem fæðast í janúar, þeir mæta klukkan tólf, allir sem eru fæddir í febrúar mæta hálftíma seinna og svo koll af kolli,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
Hún bætir við að húsinu verði skipt upp, elstu börnin verði í salnum sem flestir þekkja, þar sem foreldrar eða forsjáraðilar geta setið með sínu barni. Yngstu börnin og börn sem viðkvæm eru verði bólusett í minni rýmum. Ragnheiður bendir forsjáraðilum á að láta vita strax við skannana þegar inn í höllina er komið ef barn er viðkvæmt og þá sé þeim beint í sérúrræði og börnin bólusett í ró og næði.
Að sögn Ragnheiðar var laugardagurinn nýttur í undirbúning fyrir bólusetningarnar. Vagnarnir hafi verið undirbúnir og stólum raðað, auk þess sem sett hefur verið upp lítið svið þar sem leikarar frá Þjóðleikhúsinu ætla að kíkja í heimsókn.
„Foreldri eða forsjáraðili þarf að koma með barni og ef foreldri eða forsjáraðili kemst ekki með barni þá getur hann í skráningarkerfinu skráð fylgdarmann sem hann mun treysta fyrir því að fara með barninu,“ segir Ragnheiður.
Áður en bólusetning barna hefst klukkan tólf þessa vikuna verður opið hús í Laugardalshöll frá klukkan tíu til tólf fyrir þá sem óbólusettir eru, og þá sem eiga eftir að fá örvunarskammt ef fimm mánuðir eru liðnir frá síðustu bólusetningu. Í næstu viku geta svo þeir sem fengu bóluefni frá Janssen átt von á boði í sinn þriðja skammt.