„Þetta fer bara mjög vel af stað. Ræningjarnir eru mættir,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, um bólusetningar 5-11 ára barna sem hófust í Laugardalshöll klukkan 12.
Þegar hún nefnir ræningjana á hún við vitaskuld við ræningjana í leikritinu Kardemommubænum en leikarar Þjóðleikhússins eru á staðnum og skemmta börnum sem koma í bólusetningu.
Ragnheiður segir meira af fullorðnu fólki hafa komið í örvunarskammt en búist var við. Frá klukkan 10 til 12 gat það fólk ásamt óbólusettum mætt í Höllina og fengið bóluefni frá Pfizer eða Moderna. Sú bólusetning fer fram í anddyrinu og dregst eitthvað á langinn en bólusetningar barna með Pfizer fara annars staðar fram, eða „úti um allt hús“ að sögn Ragnheiðar.
Spurð segist hún ekki hafa orðið vör við neina mótmælendur fyrir utan Höllina. Hvað gæslu varðar segir hún þau vera vel mönnuð.
Bólusett verður í Laugardalshöll dagana 10. til 13. janúar. Upplýsingar um bólusetningar barna eru á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og á vefsíðum heilbrigðisstofnana um allt land, að því er kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.