Framkvæmdir hefjast á þessu ári við byggingu íþróttamiðstöðvar í Búðardal. Ætlun er að reisa íþróttasal með sameiginlegum þjónustukjarna hvar verða meðal annars búningsklefar fyrir útisundlaug. Á fjárhagsáætlun þessa árs eru verkefni þessu eyrnamerktar 250 millj. kr., sem er um fjórðungur af heildarkostnaði sem verður um einn ma. kr. Mannvirkið á að vera tilbúið árið 2024.
„Íþróttamiðstöð mun renna sterkari stoðum undir samfélagið hér. Þetta er framkvæmd sem lengi hefur verið kallað eftir og er brýn. Styrkja þarf innviði hér á svæðinu svo við séum samkeppnishæf til framtíðar,“ segir Eyjólfur Ingvi Bjarnason oddviti Dalabyggðar í samtali við Morgunblaðið.
Fjárhagsstöðu sveitarfélagsins nú um stundir segir hann vera ágæta og svigrúm sé til að slá lán vegna þessarar uppbyggingar. Vonandi komi þó peningar inn á móti þegar og ef sala á skóla- og íþróttamannvirkjum að Laugum í Sælingsdal gangi í gegn. Horft hefur verið til þess að húsin á Laugum nýtist ferðaþjónustu, en í yfirstandandi heimsfaraldri er lítill áhugi á kaupum.
Íbúar í Dalabyggð eru nú 620 talsins en voru 678 árið 2016. Fækkunin á þessum sex árum sem lætur nærri að vera um tíund. Þetta kallar á aðgerðir til eflingar byggðarinnar og uppbygging góðrar íþróttaaðstöðu er hluti af því, að sögn Eyjólfs Ingva. „Í dag eru um 100 nemendur í Auðarskóla í Búðardal en ekki nema 2-3 krakkar í sumum árgöngum. Að vísu er fjöldi barna alltaf í bylgjum, en þessi staða er umhugsunarverð,“ segir oddvitinn.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.