Jarðskjálfti af stærðinni 3,1 varð 6,1 km suðvestur af Vatnafjöllum, sem eru suðaustan við Heklu, um þrjúleytið í nótt. Annar af stærðinni 1,7 fylgdi á eftir skömmu síðar.
Að sögn Einars Bessa Gestssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, er um eftirskjálfta að ræða í kjölfar skjálftahrinu sem hófst á svæðinu um miðjan nóvember með jarðskjálfta upp á 5,2.
Hrinan stóð yfir í tæpar þrjár vikur. Skjálftinn í nótt upp á 3,1 er sá fimmti sem er stærri en 3 síðan eftirskjálftarnir hófust.
Síðasta sólarhringinn hafa orðið fjórir jarðskjálftar við Vatnafjöll og í heildina hafa þeir verið aðeins 10 alla síðustu viku, að sögn Einars Bessa.