Tíu voru lagðir inn á Landspítalann um helgina með kórónuveiruna og þá létust tveir af völdum veirunnar á laugardaginn. Alls eru 37 á spítalanum með veiruna og eru sjö af þeim á gjörgæslu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að það fjölgi jafnt og þétt á spítalanum í takt við mikinn fjölda smita í samfélaginu.
926 kórónuveirusmit greindust innanlands síðastliðinn sólarhring og segir Þórólfur tölurnar um helgina þolanlegar. Eins og áður sé spurning hvað gerist nú í vikunni en yfirleitt eru tekin færri sýni um helgar.
Þó hlutfall þeirra sem þurfa innlögn vegna Ómíkron sé lágt sé fjöldinn töluverður þegar hér á landi greinast í kringum þúsund smit á dag.
„Langflestir á gjörgæslu eru með Delta,“ segir Þórólfur en flestir sem lagðir hafa verið inn á spítalann síðustu daga eru með Ómíkron.
Hann segir einhverja bólusetta með Ómíkron á spítalanum og ítrekar að bólusetning komi ekki í veg fyrir smit af völdum afbrigðisins en komi frekar í veg fyrir alvarleg veikindi. Áfram er hægt að búast við því að leggja þurfi fullbólusett fólk inn á spítalann.
„Við myndum hins vegar fá mun fleiri þangað án bólusetningar,“ segir Þórólfur.
Sóttvarnalæknir er ekki búinn að skila minnisblaði, með tillögum að sóttvarnaaðgerðum, til heilbrigðisráðherra. Núverandi takmarkanir gilda til 12. janúar næstkomandi. Spurður segir hann minnisblað „í deiglunni“ og að það verði klárt fljótlega. Líkt og áður gefur Þórólfur ekkert upp um innihald minnisblaðs áður en ráðherra kynnir það fyrir ríkisstjórn.