Gauti gefur ekki kost á sér

Gauti Jóhannesson.
Gauti Jóhannesson. Ljósmynd/Aðsend

Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar í Múlaþingi, ætlar ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi setu í sveitarstjórn í vor.

Þetta tilkynnir hann á facebooksíðu sinni.

„Á þeim 12 árum sem liðin eru frá því ég fór fyrst að vinna að sveitarstjórnarmálum hef ég verið talsmaður sameiningar sveitarfélaga og vann í aðdraganda þess að Múlaþing varð til ásamt góðum hópi fólks að því verkefni,“ segir Gauti í tilkynningunni.

Hann segir Sjálfstæðisflokkinn hafa leitt sveitarstjórn Múlaþings í farsælu samstarfi þrátt fyrir erfiðar og fordæmalausar aðstæður.

„Nú þegar hyllir undir lok þess lít ég svo á að komið sé að ákveðnum kaflaskilum og þá sé rétt að stíga til hliðar og skapa þannig rými fyrir ný sjónarmið og áherslur,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert