Hollustan sé á sýnilegum svæðum

Birna Þórisdóttir næringarfræðingur.
Birna Þórisdóttir næringarfræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Óhollustan fær tvöfalt meira pláss en hollar vörur í íslenskum matvöruverslunum og töluverður munur er á milli verslana. Þetta er niðurstaða Birnu Þórisdóttur, doktors í næringarfræði við Háskóla Íslands og samstarfsfólks í rannsókn sem kynnt var á dögunum.

Hugmyndin að verkefninu kviknaði á námskeiðinu Áhrifavaldar næringar sem Birna og fleiri kenna við HÍ. Ákveðið var að kanna svonefnt „fæðuumhverfi í matvöruverslunum“ og síðasta sumar voru meistaranemar í næringarfræði, þau Perla Ósk Eyþórsdóttir og Guðmundur Gaukur Vigfússon, send út af örkinni til að athuga málin.

Með hugtakinu „fæðuumhverfi í matvöruverslunum“ er átt við hilluplássið sem ólíkar vörur fá og staðsetningu, svo sem við inngang eða kassasvæði. Einnig hvort í því felist hvatning til viðskiptavina til að kaupa ákveðnar matvörur. Niðurstaðan er sem að framan greinir; sætindi, kex, gos- og orkudrykkir og snakk hafa miklu meira rými og eru á meira áberandi stöðum en til að mynda ávextir og grænmeti.

10 fermetrar af óhollustu

„Ég býst við að stundum ráði framlegð einhverju um hillupláss og staðsetningu vara í verslunum. Forsvarsmenn matvöruverslana hafa eflaust mörg markmið í rekstri sínum og að styðja við heilsusamleg innkaup viðskiptavina getur líka reynst vel til að laða til sín aukin viðskipti. Munurinn sem við sáum á milli verslunarkeðja sýnir einmitt að verslanir geta tekið meðvitaða stefnu um að hafa lýðheilsusjónarmið í fyrirrúmi,“ segir Birna.

Kassasvæðið er staðurinn þar sem fólk er líklegt til að grípa með sér vörur og þar voru í einstaka tilvikum allt að 10 fermetrar af óhollustu. „Það er sannarlega til mikils að vinna að fjarlægja óhollustu frá kassasvæði. Koma þá með hlutlausari vörur í staðinn ef erfitt er að hafa þar hollar vörur. Og kannski einhver verslun sé til í að taka af skarið og prófa að hafa gulrætur eða annað íþróttanammi nærri afgreiðslukössum,“ segir Birna og heldur áfram:

„Já við myndum vilja sjá hollustuna fá miklu meira pláss á kostnað óhollustunnar og að hollustan sé staðsett á sýnilegustu svæðunum í verslunum. Og að sælgæti sé hvorki á kassasvæði né í augnhæð barna og fullorðinna og heldur ekki í lokkandi nammibörum.“

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Grænmetið er gott.
Grænmetið er gott. Ljósmynd/mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert