Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur ekkert vit í því að hætta almennri sýnatöku vegna kórónuveirufaraldursins og prófa eingöngu þá sem eru í áhættuhópum, líkt og Ragnar Freyr Ingvarsson, sérfræðingur í lyf- og gigtarlækningum og fyrrverandi yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítalans, velti upp í gær.
„Ég er algjörlega ósammála honum,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.
„Þungamiðjan hefur verið og er að beita einangrun og sóttkví og það hefur haldið faraldrinum aðeins í skefjum. Annars væri þetta komið í veldisvöxt, það er ég viss um,“ segir Þórólfur.
Þórólfur tekur undir með Má Kristjánssyni, yfirlækni smitsjúkdómadeildar á Landspítala, sem segir mikilvægt að halda áfram að skima af krafti.
Spurður út í nálgunina sem Ragnar Freyr veltir upp sagði Már í samtali við RÚV að fráleitt væri að stoppa skimanir.
„Viðfangsefnið hverfur ekkert þótt sé hætt að skima. Það yrði þá bara stjórnlaust, ég hef enga trú á að það væri leiðin fram á við,“ sagði Már.
Þórólfur segir engan mæla þessari hugmynd Ragnars. „Þá myndum við fá fleiri smit og meiri útbreiðslu á stuttum tíma, með meiri pressu og innlögnum á spítalann.“