Þungir brimskaflar í hafnarkjaftinum

mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Herjólfur var í þungum sjó þegar ferjan kom í innsiglinguna í Vestmannaeyjum undir hádegið í gær. Siglt var í Landeyjahöfn í rauðabýtið, en svo beið skipstjórinn af sér eina ferð og lengra fram á morguninn enda voru stórir og þungir brimskaflar í hafnarkjaftinum. Þegar leið að tólfta tímanum var lag og þá var siglt yfir sundið til Eyja. Þótti tilkomumikið að fylgjast með skipinu þegar það kom nánast hoppandi á hvítfextum öldunum að Ystakletti með Faxasker í baksýn.

Síðari ferð Herjólfs í gær var svo í Þorlákshöfn, enda ekki annað í boði aðstæðna vegna. Þaðan var svo siglt aftur til Eyja í gærkvöldi.

Raunar mun ferjan sigla úr Eyjum til Þorlákshafnar á meðan annað er ekki ákveðið, því spáð er leiðinlegu vetrarveðri næstu daga með áttum af suðri og vestri. Víða sunnanlands má gera ráð fyrir rigningu og slyddu en snjókomu og jafnvel hríðarveðri norðanlands og austan. Af því tilefni hefur Veðurstofan sett í loftið gula stormviðvörun eins og stundum er gert þegar virkilega vont veður er í kortunum og með slíku má raunar alltaf reikna í janúarmánuði. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert