Veritas ekki það sama og Veritas Capital

Hreggviður Jónsson sagði sig úr stjórn Veritas Capital og stjórnum …
Hreggviður Jónsson sagði sig úr stjórn Veritas Capital og stjórnum tengdra fyrirtækja á dögunum vegna ásakana á hendur honum um kynferðislegt ofbeldi í garð ungrar konu. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrirtækið sem Hreggviður Jónsson sat í stjórn hjá heitir Veritas Capital en ekki Veritas eins og allir helstu fjölmiðlar hafa greint frá undanfarna daga. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Veritas ehf.

Hreggviður hefur ásamt Ara Edwald og Þórði Má Jóhannessyni verið ásakaður um að hafa brotið kynferðislega á ungri konu í desember 2020.

Á fimmtudaginn síðastliðinn sendi lögmaður Hreggviðs yfirlýsingu vegna málsins fyrir hans hönd á alla stærstu fjölmiðla landsins. Í yfirlýsingunni er m.a. haft eftir Hreggviði að vegna ásakananna hyggist hann stíga til hliðar úr stjórn Veritas og stjórnum tengdra fyrirtækja til að raska ekki þeirra mikilvægu starfsemi.

Fyrirtækið sem hann sat í stjórn fyrir heitir þó réttu nafni Veritas Capital, að því er greint frá í yfirlýsingu frá Veritas ehf.

Í yfirlýsingunni, sem undirrituð er af Sigursteini Mássyni, segir að Veritas ehf. hafi verið stofnað snemma árs 1996, sex árum á undan Veritas Capital, og að fyrsta verkefni Veritas hafi verið að að framleiða heimildaþættina Aðför að lögum, um hin svokölluðu Guðmundar- og Geirfinnsmál, sem frumsýndir voru í Ríkissjónvarpinu vorið 1997.

„Bæði í fréttaflutningi sem og í yfirlýsingum aðila hefur nafn míns félags verið notað en ekki fullt nafn viðkomandi félags sem er villandi og er það tilefni þessarar yfirlýsingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert