Ætla ekki að hætta á Facebook

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun ekki hætta á Facebook.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun ekki hætta á Facebook. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hyggst ekki feta í fótspor samstarfsfélaga sinna á Suðurnesjunum og hætta að nota Facebook í samskiptum við almenning. Þetta staðfestir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Greint var frá því fyrr í dag að lögreglan á Suðurnesjum muni ekki koma til með að halda áfram að veita upplýsingar á Facebook-síðu embættisins og verður aðganginum þar sömuleiðis eytt eftir um sólarhring. Kom þetta fram í lokafærslu lögreglunnar á samfélagsmiðlinum. Var þessi ákvörðun tekin með hliðsjón af athugasemd Persónuverndar sem varðaði notkun lögreglu hér á landi á Facebook og þá sérstaklega í tengslum við móttöku upplýsinga í gegnum miðilinn.

„Það stendur ekki til,“ segir Gunnar í samtali við blaðamann spurður hvort lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ætli sér að hætta á samfélagsmiðlinum.

Hann segir Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu reynst embættinu mjög vel og sé mikilvægur vettvangur til að koma skilaboðum og upplýsingum á framfæri.

Þið teljið athugasemdir Persónuverndar ekki þess eðlis að það þurfi að loka síðunni?

„Ég veit náttúrulega ekki hvað þeir eru að vísa til en allavega er mér ekki kunnugt um það að það standi til hjá okkur annað en að vera á Facebook.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert