Andlát: Anna Kristine Magnúsdóttir Mikulcákova

Anna Kristine Magnúsdóttir Mikulcákova.
Anna Kristine Magnúsdóttir Mikulcákova. Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

Anna Kristine Magnúsdóttir Mikulcákova, blaðamaður og dagskrárgerðarmaður, lést á heimili sínu 6. janúar sl., 68 ára að aldri.

Anna Kristine fæddist 7. mars 1953 í Reykjavík, dóttir Miroslavs R. Mikulcák, framkvæmdastjóra í Reykjavík, d. 1998, er tók upp nafnið Magnús Rafn Magnússon og varð íslenskur ríkisborgari árið 1958, og Elínar Kristjánsdóttur, fv. deildarritara á Landakotsspítala, d. 2020.

Anna Kristine ólst upp við Smáragötu auk þess sem hún dvaldi við Straumfjarðará á Snæfellsnesi öll sumur á æskuárunum. Hún var í Ísaksskóla, Æfingadeild KÍ og Hagaskóla, stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands og lauk þaðan verslunarprófi 1971.

Starfaði hjá Eimskip árin 1969-1973 en hóf störf í blaðamennsku 1977. Anna Kristine var blaðamaður á Vikunni, hjá Frjálsu framtaki, Helgarpóstinum, Pressunni, helgarblaði DV og síðar á DV. Hún ritstýrði nokkrum tímaritum og skrifaði ógrynni viðtala og greina. Anna Kristine hlaut verðlaun Blaðamannafélags Íslands árið 2007 í flokki rannsóknarblaðamennsku. Var hún þá hluti af teymi blaðamanna DV er fjallaði um illan aðbúnað og meðferð barna á vistheimilum hins opinbera.

Hún hóf störf hjá RÚV árið 1991, við Dægurmálaútvarp Rásar 2 til 1996 og eftir það til 1999 var hún með vinsælan útvarpsþátt á Rás 2, Milli mjalta og messu. Þaðan flutti hún með sama þátt yfir á Bylgjuna og var þar í loftinu til 2003.

Anna Kristine gegndi fjölmörgum öðrum störfum, var formaður Kattavinafélagsins um tíma, var fararstjóri í Prag og efndi til nokkurra góðgerðar- og styrktartónleika hér á landi. Einnig ritaði hún bækur og ævisögur, m.a. Litróf lífsins I-II, Milli mjalta og messu og Með létt skap og liðugan talanda, æviferill Margrétar í Dalsmynni.

Anna Kristine lætur eftir sig uppkomna dóttur, Elísabetu Elínu Úlfsdóttur, Lizellu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert