Tveir vöruflutningabílar fuku út af veginum á Holtavörðuheiði um klukkan fimm í dag. Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular viðvaranir á vesturhelmingi landsins vegna þess óveðurs sem fram undan er og varar við slæmum akstursskilyrðum.
„Það gætu orðið einhverjar truflanir innanbæjar en það ætti ekki að vera hættulegt. Hinsvegar á fjallvegum getur verið varasamt og það eru líkur á að færð spillist á Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði,“ segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Að sögn Birgis mun hvessa vestan til á landinu upp úr níu og er því spáð að veðrið gangi hratt yfir en að snjókoma og éljagangur fylgi með. Þá mun draga úr veðri í nótt en þegar fer að líða á morguninn fari að hvessa aftur.
Því er spáð að veðrið á morgun verði nokkuð svipað, hvassviðri eða stormur ásamt éljagangi með lélegu skyggni og mögulega versnandi færð á vesturhelmingi landsins. Það fari síðan ekki að draga almennilega úr veðri fyrr en eftir hádegi á fimmtudag.