Hvetja innflytjendur til að bólusetja sig

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að fleiri finni fyrir kulnun …
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að fleiri finni fyrir kulnun í starfi vegna Covid-19. Ljósmynd/Aðsend

Atvinnurekendur mega ekki ganga lengra en löggjafinn í skyldubólusetningum. Alþýðusamband Íslands hefur lagt sitt að mörkum til að koma upplýsingum til innflytjenda um bólusetningar og hvetja þá til að þiggja hana.

Þetta sagði Drífa Snæ­dal, for­seti Alþýðusam­bandi Íslands, á opnum fundi efna­hags- og viðskipta­nefndar Alþing­is í dag. 

„Ég er mjög fylgjandi bólusetningum, bara svo að það sé sagt. Við höfum lagt okkar að mörkum til að koma upplýsingum til innflytjenda í gegnum okkar „kanala“ um bólusetningar til að upplýsa fólk og hvetja það.

Að því sögðu hef ég töluvert miklar áhyggjur af því að þetta búi til misrétti á vinnumarkaði, að við séum að ganga inn í eitthvað tímabil þar sem eru bólusettir annars vegar og óbólusettir hins vegar. Þetta getur varðað atvinnuöryggi beinlínis að kjósa að bólusetja sig ekki.“

Erfitt að fá fólk til starfa þrátt fyrir atvinnuleysi

Þá kom fram í máli Drífu að sambandið hefur miklar áhyggjur af atvinnuleysi og sagði hún um 10.000 manns nú í leit að atvinnu. Verst væri staða ungs fólks og fólks af erlendum uppruna. 

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Drífu hvers vegna erfitt væri fyrir mörg fyrirtæki að fá fólk til starfa þrátt fyrir þetta atvinnuleysi. Að sögn Drífu er ástæða þess þríþætt.

Í fyrsta lagi sagði hún að trúnaðarrof hefði orðið í sumum fyrirtækum gagnvart launfólki, sem dæmi nefndi hún fyrirtæki sem nýttu sér úrræði stjórnvalda, eins og hlutabótaleiðina, og fyrirtæki sem gerðu kröfu um að starfsmenn tækju á sig kjaraskerðingu. Í öðru lagi sagði hún ástæðuna geta verið svæðis- og vinnutímabundna og nefndi að vaktavinna henti ekki öllum. Í þriðja lagi nefndi hún að mögulega væri erfitt fyrir fólk að koma sér aftur í virkni eftir að hafa verið atvinnulaust í langan tíma. 

Þá segir Drífa að víða hafi álag aukist og að andlegri heilsu starfsfólks fari hrakandi. Því óttast hún aukin veikindaforföll og kulnun í starfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert