Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna vegna Covid-19 heimsfaraldursins, í samráði við sóttvarnalækni. Er þetta í fjórða sinn sem lýst er yfir neyðarstigi síðan faraldurinn hófst.
Í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir að það sé mat sóttvarnalæknis og almannavarna að ef samfélagið tekur sig saman, hægi á, minnki samgang eins og hægt er, sé um tímabundið ástand að ræða og landsmenn geti með hækkandi sól lifað með mun minni samkomutakmarkanir en nú eru í gildi.
„Frá því að Ómíkron-afbrigði kórónaveirunnar greindist hér fyrst í byrjun desember 2021 hefur Covid-19 faraldurinn verið í miklum vexti. Samfélagslegar takmarkanir voru hertar þann 23. desember sl. en þrátt fyrir þær takmarkanir hefur ekki tekist að fækka daglegum smitum innanlands að marki og eru þau þessa dagana 1.000-1.200, auk þess er veruleg aukning á smitum hjá þeim sem greinast daglega á landamærum. Staðan er því þung og þyngist nú dag frá degi,“ segir í tilkynningunni.
Landspítalinn var færður upp á neyðarstig 28. desember og er það mat landlæknis að staðan muni á næstunni þyngjast enn meira á fleiri heilbrigðisstofnunum, bæði vegna fjölgunar sjúklinga með Covid-19 sem og vegna fjölgunar starfsmanna í einangrun.
„Í ljósi framangreinds er það mat ríkislögreglustjóra að rétt sé að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna.
Með því virkja fyrirtæki og stofnanir viðbragðsáætlanir sýnar um órofinn rekstur á hæsta stigi. Slíkt hefur ekki almenn áhrif á almenning en lýtur fyrst og fremst að þeim fyrirtækjum, stofnunum og viðbragðsaðilum sem hlutverki hafa að gegna í viðbragðsáætlun almannavarna og sóttvarnalæknis.“