Íslensk erfðagreining (ÍE) ætlar að kanna raunverulega útbreiðslu nýju kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 í samfélaginu. Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, sagði að þetta verði sambærileg könnun við þá sem gerð var í apríl 2020. Hann telur að veiran sé komin mjög víða.
Valið var slembiúrtak fólks af höfuðborgarsvæðinu. Talið er að svo margir hafi þegar smitast að úrtak upp á 500-1.000 manns ætti að duga. Þeir sem lenda í úrtakinu eru boðaðir í Turninn í Kópavogi í sýnatöku. Velgengni rannsóknarinnar ræðst af því hve viljugt fólk er til þátttöku.
Hve fljótt það bregst við kallinu ræður því hvenær niðurstöðurnar liggja fyrir. Kári sagði að sjálf mótefnamælingin og greiningin taki skamman tíma. Hugmyndin er að gera aðra svona skimun eftir einn mánuð og að skima þá aftur sama fólkið til að kanna hvort útbreiðsla smitsins hafi breyst.
„Spurningin sem við leitum svara við er hversu víða veiran hefur farið,“ sagði Kári. „Ef þú smitast og verður lítið lasinn eða ert einkennalaus þá er erfitt að finna þetta. Þegar við könnuðum þetta 2020 reyndust tvisvar sinnum fleiri hafa smitast en ætla mátti af PCR-prófum.“
Kári benti á að vegna fjölda bólusetninga og nýrra afbrigða af veirunni megi gera ráð fyrir því að enn stærri hundraðshluti en áður hafi smitast án þess að vita af því og sé einkennalaus.
Rannsóknin nú er eilítið flóknari en þegar útbreiðsla kórónuveirusmits var rannsökuð vorið 2020. Ástæða þess eru bólusetningarnar gegn Covid-19. Bóluefnin stuðla að myndun mótefnis gegn broddpróteini nýju kórónuveirunnar og því finnst það hjá öllum bólusettum og þeim sem hafa smitast. Íslensk erfðagreining ætlar nú að mæla mótefni gegn kjarnapróteini veirunnar. Líkaminn myndar það ekki við bólusetningu heldur einungis við smit.
„Ég held að það skipti sköpum fyrir okkur að vita hvort það sé raunverulega miklu stærri hundraðshluti fólks sem hefur smitast af veirunni en talið er. Ef svo er fer maður að velta því fyrir sér hvort þær aðgerðir sem við erum með í gangi núna séu réttar. Niðurstöður þessarar rannsóknar geta reynst mikilvægar fyrir sóttvarnayfirvöld,“ segir Kári.
Hann segir að könnunin nú sé sams konar og sú sem Persónuvernd ákvarðaði að hefði brotið í bága við lög og því talist glæpur. „Við hér í Vatnsmýrinni erum því að auka möguleika okkar á því að verða raðglæpamenn,“ segir Kári.
Allir starfsmenn ÍE, um 250 manns, voru skimaðir til að kanna kórónuveirusmit á mánudag í síðustu viku. Enginn reyndist vera smitaður.
„Eins og ég hef áður sagt þá er þessi sjúkdómur að hluta til hegðunarsjúkdómur. Það hvernig þú hagar þér ræður miklu um hvort þú smitast eða ekki. Ég held að niðurstöður skimunarinnar hjá okkur á mánudag í síðustu viku séu endanleg sönnun þess að hér vinnur skringilegt innhverft fólk, sem blandar ekki geði við marga,“ segir Kári.