Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, hefur ákveðið að bjóða sig fram til endurkjörs í komandi borgarstjórnarkosningum og óskar eftir stuðningi til að skipa áfram þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar.
„Ég legg fram reynslu mína, þekkingu og brennandi áhuga á menntun og velferð barna og ungmenna að ógleymdum grænum áherslum í skipulagi, atvinnumálum og samgöngum,“ segir Skúli í yfirlýsingu sinni vegna flokksvals Samfylkingarinnar 12.-13. febrúar.
„Jöfn tækifæri og jafnrétti til náms hafa verið rauður þráður í öllum mínum störfum í stjórnmálum – alveg frá því að ég tók fyrstu slagina í Röskvu, seinna sem formaður menntamálanefndar Alþingis og nú síðustu átta árin sem formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur,“ bætir hann við.
Skúli segir samþykkt og innleiðingu á nýrri menntastefnu Reykjavíkur hafa verið eitt af stóru verkefnunum á kjörtímabilinu með áherslu á fimm hæfniþætti sem hún vilji styrkja hjá öllum börnum: félagsfærni, sjálfseflingu, heilbrigði, sköpun og læsi.
Hann segir inntökualdur í leikskóla hafa lækkað og plássum verið fjölgað til að geta á næstu árum boðið börnum í leikskóla allt frá 12 mánaða aldri.
„Á þessu ári munum við bjóða a.m.k. 600 börnum til viðbótar í leikskóla borgarinnar. Það er meiri fjölgun en sést hefur í marga áratugi. Ég hef sérstaklega barist fyrir því að bæta kjör og starfsaðstæður í skólum og frístundastarfi og höfum við varið meira en 5 milljörðum til þess á kjörtímabilinu,“ segir hann.
Hann segir eina birtingarmynd þess að menntamálum borgarinnar sé stjórnað í anda jafnaðarstefnu vera aukningu upp á 1,5 milljarða króna í fjárframlög til grunnskólanna á þessu ári.
„Á næsta kjörtímabili vil ég beita mér áfram fyrir því að við jöfnum aðstöðumun barna og styðjum enn betur við þau sem standa höllum fæti í samfélaginu, svo sem vegna efnahags foreldra, uppruna, fötlunar, hvers kyns námserfiðleika, hegðunar eða annarra félagslegra aðstæðna,“ bætir hann við og segist loks ætla að beita sér fyrir því að Reykjavíkurborg verði áfram í fararbroddi á Íslandi þegar kemur að grænum fjárfestingum og þýðingarmiklum aðgerðum í loftslagsmálum.
„Sem dæmi vil ég halda áfram að leiða vinnu við rafvæðingu Faxaflóahafna og vitundarvakningu um loftslagsmálum í grunnskólum, sem við höfum nýlega sett af stað í samstarfi við félagasamtök, fyrirtæki borgarinnar og aðrar borgir í Evrópu.“