Þrautseigja og dugnaður skipt sköpum

Fjöldi ferðamanna, innlendra sem erlendra, skoðaði eldgosið í Geldingadölum.
Fjöldi ferðamanna, innlendra sem erlendra, skoðaði eldgosið í Geldingadölum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Endurreisn ferðaþjónustunnar á Íslandi og styrking hennar er Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra ferðamála, efst í huga um þessar mundir eftir gríðarleg áföll sem hafa dunið á greininni undanfarið vegna Covid-19.

Þetta sagði Lilja á fundi sem bar yfirskriftina „Nýársmálstofa Íslenska ferðaklasans, SAF og KPMG“ sem fór fram í morgun.

Hún sagði langtímahorfur ferðaþjónustunnar á Íslandi á heimsvísu bjartar og að landið búi yfir því sem fólk sækist eftir, eða ævintýralegri upplifun í einstöku landslagi. Hún nefndi einnig að Íslandi eigi mikið inni í menningarferðaþjónustu og að halda skuli íslenskunni á lofti við erlenda gesti.

Lilja talaði um mikla aðlögunarhæfni ferðaþjónustunnar. Stuðningsaðgerðir stjórnvalda hafi reynst vel en fyrst og fremst hafi þrautseigja og dugnaður fólksins í greininni skipt máli.

Lilja Alfreðsdóttir á fundinum í morgun.
Lilja Alfreðsdóttir á fundinum í morgun. Ljósmynd/Skjáskot

Hún minntist á nýlega skýrslu KPMG um ferðaþjónustu þar sem kemur fram að þótt ferðamönnum sé að fjölga sé staðan viðkvæm, einkum vegna erfiðrar skuldastöðu greinarinnar og mönnunarvanda.

Lilja sagði það verkefni stjórnvalda og einkaaðila að mynda efnahagslega loftbrú yfir tímabil kórónuveirunnar til að fjárfestingin sem hafi verið lögð í greinina haldi áfram að nýtast.

Að sögn Lilju þarf jafnframt að leggja aukna áherslu á sjálfbærni í ferðaþjónustu, til dæmis að setja metnaðarfull markmið um orkuskipti.

Álag á Mýrdalshreppi

Tveir af fjórum þeirra sem fluttu ræðu á fundinum voru annað hvort í sóttkví eða smitgát, þar á meðal Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri í Hveragerði.

Hún benti á mikilvægi framkvæmdasjóðs ferðamannastaða fyrir sveitarfélög. Sjóðurinn hafi runnið til verkefna úti um allt land og gert sveitarfélögum kleift að þróa ferðaþjónustuna áfram og bæta aðstöðu. Einnig nefndi hún Byggðastofnun sem mikilvægan bakhjarl.

Aldís Hafsteinsdóttir.
Aldís Hafsteinsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aldís talaði um stöðu mála í Mýrdalshreppi þar sem mikil fjölgun ferðamanna hefur verið. Þar búa um 700 íbúar og 40% þeirra eru af erlendu bergi brotnir. Langflestir þeirra vinna í ferðaþjónustu og hefur húsnæðisskortur verið ríkjandi fyrir fólk sem vinnur á svæðinu. „Það er álag á sveitarfélaginu en kostirnir eru fjölmargir,“ sagði hún og nefndi nýlega 3.800 fermetra verslunarmiðstöð í Vík.

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, sagði Norðurlöndin leggja aukna áherslu á að allt í ferðaþjónustu skili sér í jákvæðri niðurstöðu fyrir samfélagið. Hún sagði tíma kominn til að fjárfesta í umhverfismálum. Fyrirtækin sem taki umhverfis- og gæðamál föstum tökum verði fljót að sjá ávinninginn sem hljótist af því.

200 milljarða tekjur af ferðaþjónustunni

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, sagði síðasta ár hafa verið betra en margir óttuðust. Ferðamennirnir hafi verið heldur fleiri en var spáð, eða um 700 þúsund talsins. Tekjur af ferðaþjónustunni hafi líklega verið um 200 milljarðar króna

Á þessu ári er spáð 1,3 milljónum ferðamanna og 1,5 milljónum á næsta ári.

Ferðamenn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar síðasta sumar.
Ferðamenn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar síðasta sumar. mbl.is/Unnur Karen

Bankinn spáir ríflega 4% hagvexti í ár. Drjúgur hluti af vextinum er vegna útflutnings og er ferðaþjónustan þar stór hluti, sagði Jón Bjarki.

Hann tók þó fram að óvissan sé gríðarleg vegna kórónuveirunnar og að batinn muni líklega færast aftar á árið vegna útbreiðslu Ómíkron-afbrigðisins. Kvaðst hann þó almennt séð bjartsýnn fyrir hönd ferðaþjónustunnar.

Jón Bjarki vakti athygli á hærri launakostnaði og að útlit væri fyrir að lágmarkslaun hækki um 10% á hálfu ári. Lífskjarasamningarnir hafi skilað láglaunafólki verulegum kjarabótum en það sé áskorun fyrir mannaflsfrekar greinar á borð við ferðaþjónustuna.

Reynisfjara í Mýrdalshreppi.
Reynisfjara í Mýrdalshreppi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilja fyrirsjáanleika og framtíðarsýn

Sævar Kristinsson, sérfræðingur hjá KPMG, kynnti að lokum skoðanakönnun sem var gerð í samstarfi við SAF og Íslenska ferðaklasann. 96 fyrirtæki svöruðu. Þar kom í ljós að 4% þeira eru með fleiri en 100 starfsmenn en 61% með 1 til 10 starfsmenn.

94% fyrirtækja segjast ætla að halda sínu striki á þessu ári og 77% telja þörf á því að stjórnvöld styrki greinina með því að framlengja þær aðgerðir vegna kórónuveirunnar sem hefur verið farið í, efla markaðssókn, fyrirsjáanleika og framtíðarsýn.

Helsta ógn íslenskrar ferðaþjónustu er Covid-19 og ætti það að koma fæstum á óvart.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert