Notkun lögreglu á samskiptamiðlinum Facebook á fyrst og fremst að felast í því að koma mikilvægum skilaboðum á framfæri til almennings, auðvelda samskipti, bæta og auka þjónustu við notendur og svara kalli nútímans um breyttar og fjölbreyttari samskiptaleiðir.
Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem hyggst ekki eyða Facebook-síðu sinni eins og lögreglan á Suðurnesjum.
Í mars á síðasta ári gerði Persónuvernd athugasemd við notkun lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á samskiptamiðlum í kjölfar frumkvæðisathugunar á hvort notkun embættisins á Facebook væri í samræmi við persónuverndarlög. Varðaði athugasemdin atvik þar sem LRH óskaði eftir upplýsingum frá almenningi í gegnum einkaskilaboð.
Var í kjölfarið farið yfir verklag og tekið fyrir að beðið yrði um upplýsingar frá almenningi gegnum miðilinn, en þess í stað aðrar leiðir nýttar til móttöku upplýsinga, að því er fram kemur í tilkynningu LRH. Segir þar einnig að embættið veitir ekki persónugreinanlegar upplýsingar til aðila í gegnum samskiptamiðilinn.
„Því telur embættið að ekki sé tilefni til þess að hætta notkun þess á samfélagsmiðlinum í ljósi þess að um er að ræða mikilvægan vettvang fyrir lögreglu til að ná til almennings og auka sýnileika lögreglu í samfélaginu.“