Vildu dreifa ösku við Sólfarið og Norræna húsið

Sólfarið við Sæbraut er vinsælt á meðal ferðamanna.
Sólfarið við Sæbraut er vinsælt á meðal ferðamanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dæmi eru um að fólk hafi sótt um að dreifa ösku við Sólfarið í Reykjavík og á lóð Norræna hússins. Efnaður Bandaríkjamaður sem hafði aldrei komið áður til Íslands vildi láta dreifa ösku sinni á Siglufirði.

Þetta segir Halldór Þormar Halldórsson, hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, spurður um stöðuna þegar kemur að þessum málum.

Umræddur Bandaríkjamaður hafði lengi hrifist af Íslandi og þegar hann sá vetrarmyndir frá Siglufirði fól hann lögmannsstofu að finna stað þar til að dreifa öskunni. Það var gert uppi í fjöllum fyrir ofan bæinn fyrir nokkrum árum síðan og annaðist björgunarsveit verkefnið.

Siglufjörður.
Siglufjörður. mbl.is/Bjarni Helgason

42 umsóknir í fyrra

Alls bárust sýslumanni 63 umsóknir um dreifingu ösku árið 2019, samkvæmt tölum embættisins og árið eftir voru þær 38 talsins. Í fyrra bárust 42 umsóknir. Fækkun umsóknanna frá 2019 til 2021 stafar af því að árið 2019 barst um helmingur umsókna frá útlendingum sem komu til Íslands sem ferðamenn og höfðu með sér ösku látinna ástvina. Kórónuveiran hefur því spilað sitt hlutverk í fækkuninni. 

Fólk áttar sig illa á staðháttum

Halldór Þormar kveðst hafa fundið fyrir auknum áhuga á dreifingu ösku hér á landi árið 2017 og áhuginn hafi aukist til muna 2019. Oftast er þetta fólk frá Bandaríkjunum, Þýskalandi og Frakklandi. Eitthvað er þó um Íslendinga sem hafa verið búsettir erlendis.

Hann segir að í fæstum tilfellum séu þetta útlendingar sem hafa áður komið til landsins. Fólkið átti sig illa á staðháttum hér og þeim reglum sem eru í gildi um dreifingu ösku, Henni má til að mynda ekki dreifa í þéttbýli en það má dreifa henni í óbyggðum fjalla eða í sjó með leyfi sýslumanns.

Norræna húsið.
Norræna húsið.

„Fólk áttar sig ekki á því að Ísland er óbyggt að mestu leyti nema við ströndina,“ segir Halldór og bætir við að oft þurfi að útskýra ýmislegt í kringum dreifingu ösku hérlendis en stundum komi þó beiðnir sem hægt sé að samþykkja.

Hann nefnir dæmi um að fólk hafi ætlað að leigja báta til dreifa ösku úti á sjó. Engar reglur eru um hversu langt þarf að fara frá landi til að dreifa öskunni.

Duftker.
Duftker. AFP

„Aðhlátursefni í kvikmyndum“

Lagafrumvarp um breytingu á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu hefur verið lagt fram á Alþingi í þriðja sinn þar sem lagt er til aukið frjálsræði í dreifingu ösku hér á landi.

Í aðsendri grein stjórnarmanna í Kirkjugarðssambandi Íslands í Morgunblaðinu í morgun kemur fram að núgildandi lög feli í sér að borin sé virðing fyrir ösku látinna. Hætta sé á því að frjáls meðhöndlun ösku eftir líkbrennslu geti haft öfug áhrif. „Nefna má dæmi frá Bandaríkjunum þar sem slíkt frjálsræði er gert að aðhlátursefni í kvikmyndum,“ segir í greininni, en sambandið skrifaði fyrir ári síðan umsögn vegna frumvarpsins.

Halldór Þormar Halldórsson.
Halldór Þormar Halldórsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram kemur í greininni að ekki verði heldur séð að það standist að meira frjálsræði sé í þessum málum á Norðurlöndunum, líkt og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Löggjöfin þar sé áþekk okkar. Auk þess benda þeir á að starfsfólki kirkjugarða hafi ekki borist neinar kvartanir vegna núverandi fyrirkomulags öskudreifingar.

Vill víkka reglurnar

Að sögn Halldórs Þormars, sem sendi einnig inn umsögn vegna frumvarpsins fyrir hönd sýslumanns, eru reglurnar ólíkar á milli landa varðandi dreifingu ösku og eru þær til að mynda mjög strangar í Þýskalandi en frjálslyndar í Bandaríkjunum. „Það er matsatriði hvað er rétt að gera í þessu. Persónulega finnst mér í lagi að víkka reglurnar en ég vil ekki gefa þær frjálsar,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert