Ragnar Freyr Ingvarsson, sérfræðingur í lyf- og gigtarlækningum og fyrrverandi yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítalands, vill ekki að hætt verði alfarið að skima fyrir Covid-19 og leyfa faraldrinum að geysa frjálsum hér á landi, að því er hann greindi sjálfur frá á Facebook í dag.
Síðastliðinn sunnudag velti Ragnar upp þeirri spurningu hvort það sé nauðsynlegt að halda áfram að framkvæma jafn mörg PCR-próf og hefur verið gert hér á landi og það á að mestu leyti frísku fólki sem hefur litla áhættu á því að veikjast alvarlega, leggjast inn á sjúkrahús eða lenda á gjörgæslu. Hvort það væri mögulega nóg að prófa þá þá sem eru í áhættuhópum og vakta þá sérstaklega.
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítala, er ósammála Ragnari hvað þetta varðar en í samtali við RÚV á sunnudaginn var sagði hann það ekki leysa vandann að sleppa faraldrinum lausum og hætta skimunum.
„Viðfangsefnið hverfur ekkert þótt sé hætt að skima. Það yrði þá bara stjórnlaust. Ég hef enga trú á því að það væri leiðin fram á við,“ segir Már við fréttastofu RÚV.
Inntur viðbragða sagðist Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir heldur ekki telja neitt vit í því að hætta almennri sýnatöku vegna faraldursins og að prófa eingöngu þá sem eru í áhættuhópum, líkt og Ragnar lagði til.
„Ég er algjörlega ósammála honum,“ sagði Þórólfur í samtali við mbl.is í gær.
Í færslu sem Ragnar birti á Facebook í dag segist hann skilja vel að Þórólfur og Már hafi tekið vangaveltur hans um að endurhugsa forgangsröðun varðandi skimanir fyrir Covid-19 óstinnt upp enda hafi sú aðferð gefist vel hingað til.
„Það eru þó blikur á lofti og vert að athuga hvort þessi aðferð sé að bregðast okkur núna. Það lýsir sér með því hversu margir greinast utan sóttkvíar og hversu hátt hlutfall jákvæðra sýna er á degi hverjum,“ segir hann í færslunni.
Áréttar hann þó að vangaveltur sínar snúist um það hvort mögulega sé betra að færa fjármuni milli málaflokka og styrkja innviði heilbrigðiskerfisins betur.
„Út á það gekk innlegg mitt á sunnudag. Ekki að hætta skimun eða láta faraldurinn geysa [sic] frjálst – það er fjarri lagi.“
Þá bendir hann á að yfirvöld í öðrum löndum séu farin að endurhugsa nálgun sína í baráttunni við faraldurinn.
„Yfirvöld í Helsinki og 11 nærlægum bæjarfélögum eru að taka algera U-beygju í sinni nálgun. Kannski með fullróttækum hætti. En það verður spennandi að sjá hvernig þeim tekst til.“