Andlát: Arna Schram

Arna Schram.
Arna Schram. Ljósmynd/Rut Sigurðardóttir

Arna Schram, sviðsstjóri hjá Reykja­vík­ur­borg og fv. formaður Blaðamanna­fé­lags Íslands, lést á Land­spít­al­an­um í gær, 53 ára að aldri.

Arna fædd­ist 15. mars árið 1968 í Reykja­vík, dótt­ir Ell­erts B. Schram, fv. rit­stjóra og þing­manns, og Önnu Guðlaug­ar Ásgeirs­dótt­ur tölvu­rit­ara.

Hún ólst upp í Reykja­vík, gekk í Vest­ur­bæj­ar­skól­ann og Haga­skóla og varð stúd­ent frá MR árið 1988. Arna lauk BA-gráðu í stjórn­mála­fræði og heim­speki frá Há­skóla Íslands og Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla, auk MBA-gráðu með áherslu á stjórn­un, rekst­ur og markaðsmál frá Há­skól­an­um í Reykja­vík.

Arna hóf störf í blaðamennsku ung að árum, byrjaði á DV en fór þaðan á Morg­un­blaðið vorið 1995. Þar starfaði hún allt til árs­ins 2006 sem blaðamaður á inn­lendri frétta­deild, lengst af sem þing­frétta­rit­ari en sinnti einnig kvöld­frétta­stjórn um skeið. Arna skrifaði jafn­framt viðhorfs- og þing­p­istla í Morg­un­blaðið.

Hún var aðstoðarrit­stjóri tíma­rits­ins Krón­ík­unn­ar um skamm­an tíma og eft­ir það frétta­stjóri á Viðskipta­blaðinu um þriggja ára skeið.

Árið 2010 var Arna ráðin upp­lýs­inga­full­trúi Kópa­vogs­bæj­ar og ári síðar varð hún for­stöðumaður menn­ing­ar­mála hjá Kópa­vogs­bæ. Frá vor­mánuðum 2017 til dauðadags gegndi hún starfi sviðsstjóra menn­ing­ar- og ferðamála­sviðs Reykja­vík­ur­borg­ar. Meðfram þeim störf­um var hún m.a. stjórn­ar­formaður Ráðstefnu­borg­ar­inn­ar Reykja­vík, Meet in Reykja­vik.

Hún starfaði um hríð hjá Há­skól­an­um í Reykja­vík og var formaður List­d­ans­skóla Íslands.

Arna gegndi fjöl­mörg­um trúnaðar­störf­um fyr­ir Blaðamanna­fé­lag Íslands (BÍ) og tók virk­an þátt í alþjóðlegu sam­starfi á þeim vett­vangi. Var vara­formaður fé­lags­ins 2003-2005 og formaður á ár­un­um 2005-2009. Þá átti hún sæti í fjöl­miðlanefnd, sem full­trúi BÍ.

Eft­ir­lif­andi dótt­ir Örnu er Birna Ket­ils­dótt­ir Schram, f. 1994.

Morg­un­blaðið þakk­ar Örnu sam­fylgd­ina og góð störf og send­ir fjöl­skyldu henn­ar inni­leg­ar samúðarkveðjur.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert