Atvinnuleysi hefur minnkað hratt frá í fyrra

Atvinnuleysi hefur minnkað jafnt og þétt frá því í janúar …
Atvinnuleysi hefur minnkað jafnt og þétt frá því í janúar í fyrra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Atvinnuleysi á Íslandi hefur minnkað nokkuð hratt frá því sem verst var vegna faraldursins og mældist 4,9% í lok síðasta mánaðar. 

Hæst mældist það 11,6% í janúar á síðasta ári og hefur því lækkað um 6,7 prósentustig síðan. Atvinnuleysi mældist 10,7% fyrir réttu ári og hefur því minnkað um 5,8% síðan þá. 

Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans þar sem einnig segir að Vinnumálastofnun spái því að atvinnuleysi í þessum mánuði muni aukast og standa í 5,2% við mánaðamót.

Atvinnuleysi mest á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í desember 4,9% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og var óbreytt frá því í nóvember. Alls voru 10.161 manns á atvinnuleysisskrá í lok desember. 

Skráð atvinnuleysi náði hámarki í janúar 2021 þegar það var 11,6%. Atvinnuleysið hefur því minnkað um 6,7 prósentustig frá sem mest var. Í desember 2020 var almennt atvinnuleysi 10,7% og það hefur því minnkað um 5,8 prósentustig á einu ári. Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi muni aukast í janúarmánuði og verði í kringum 5,2%. 

Atvinnuleysi er langmest á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Atvinnuleysi á Suðurnesjum hefur mælst undir 10% síðastliðna fimm mánuði en í janúar í fyrra fór það hæst í 24,5%.

Fjöldi langtímaatvinnulausra (atvinnuleysi lengur en í 12 mánuði) jókst jafnt og þétt á árunum 2019 og 2020 og tók að herða á fjölguninni eftir að faraldurinn brast á. Fjöldinn tók svo stökk upp á við í upphafi ársins 2021, ári eftir að áhrif faraldursins birtust, og náði hámarki í apríl. Eftir að atvinnuleysi tók að minnka hefur langtímaatvinnulausum fækkað um 2000, eins og segir í hagsjá Landsbankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka