Ketill Sigurður Jóelsson viðskiptafræðingur gefur kost á sér í 1-2 sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.
Ketill er menntaður viðskiptafræðingur og stundar eigin rekstur samhliða starfi sem verkefnastjóri á rekstrardeild umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar er kemur fram í tilkynningu frá Katli. Þar kemur einnig fram að Ketill hefur verið virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins.
„Nú er kominn tími til þess að horfa með bjartsýnum augum til framtíðar og setja okkur markmið til lengri tíma en aðeins eitt kjörtímabil í einu. Á Akureyri er ótrúlega gott að búa, hér eru frábærir skólar, allt frá leikskóla til háskóla, fjölbreytni tómstunda mjög mikil og góður grunnur til þess að reka hér fjölskyldu,“ segir í tilkynningu Ketils.
„Það fer ekki fram hjá neinum að höfuðstaður norðurlands og stærsti þéttbýliskjarni utan höfuðborgarsvæðisins á sér bjarta framtíð. Núna þarf að styðja við þessa þróun og horfa til framtíðar. Hvernig verður Akureyri eftir 25 ár?“