Guðni Einarsson
„Ekkert mál sem ég hef látið mig varða á Alþingi hefur fengið jafn sterk viðbrögð og frumvarp mitt um rýmri reglur um dreifingu ösku látinna. Mjög margir hafa haft samband við mig og fagnað þessu mjög,“ segir Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður. Hún hefur í þriðja sinn lagt fram frumvarp um rýmkun reglna um dreifingu ösku látinna og vonar að það verði samþykkt nú.
Þrír stjórnarmenn í Kirkjugarðasambandi Íslands segja ekki brýna nauðsyn til að rýmka reglurnar, samkvæmt aðsendri grein þeirra í Morgunblaðinu í gær.
Bryndís telur að dreifing ösku látinna utan kirkjugarða sé algengari en opinberar tölur segja og ekki alltaf farið að lögum. Margir viti hreinlega ekki að um þetta gildi lög. Hún nefndi fréttamynd af dreifingu ösku við Gullfoss, sem er bannað, og hefur heyrt af fólki sem dreifði ösku sama manns á fleiri en einum stað. „Ég fæ ábendingar um að það sé mikil þörf fyrir að rýmka þessar reglur, þótt starfsfólk kirkjugarðanna hafi ekki heyrt af því,“ segir Bryndís.
Hún telur að rýmri reglur um dreifingu ösku utan kirkjugarða ógni ekki framtíð kirkjugarðanna og hefðum sem þeim fylgja. Bryndís kveðst hafa aflað sér upplýsinga frá Norðurlöndum um hvaða reglur gilda þar varðandi dreifingu ösku.
„Löggjöf þar er frjálsari en hér. Þar er t.d. leyft að merkja staði þar sem ösku er dreift, eins og skógarlundi. Verði frumvarp mitt samþykkt verður frjálsræðið hér meira en á Norðurlöndum því ég vil gefa þetta alveg frjálst,“ segir Bryndís.